SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Magnea Þuríður Ingvarsdóttir 3. mars 2024

ÞJÓÐARMORÐ

Skáldkonan Rakel Hinriksdóttir hefur sent frá sér nýtt ljóð.
 
Hún segir: Þó að tilraunir til þess að koma því í orð, hvaða áhrif stríðið í Palestínu hefur á mig, séu eins og krafs í myrkri, reyndi ég að klína saman ljóði fyrir samstöðufund á Ráðhústorgi á Akureyri í dag. Hér er það:
 
Þjóðarmorð.
Eru einhver orð?
Hver finnur orð
um þjóðarmorð?
Einhver óbeisluð grimmd sem eirir engu,
enginn á Gaza er óhultur lengur.
Grimmd sem brýtur upp veika vörn
og kærir sig kollótta’ um lítil börn.
*
Þjóðarmorð.
Eru einhver orð?
Ef þú finnur þau,
Er hægt að öskra þau nógu hátt?
Kasta þeim nógu fast?
Kreista úr þeim meiningu?
Kreista úr þeim lifið?
Þar til þau liggja köld og hörð,
eins og börn um sviðna jörð?
*
Má ég tala?
Má ég segja?
Hvað það sker mig í sundur,
eða verð ég að þegja?
 
Því ég tilheyri þjóð,
sem fordæmir ekki.
Líta undan þótt blóð
renni’ úr reykjarmekki.
 
Líta undan þótt orð
eins og ‘Þjóðarmorð’,
blasi blákalt við,
þvert á heimsins svið.
 
Stara á það tómum og líflausum augum,
þetta orð, sem það þýði ekki neitt fyrir neinum.
Líta undan og afsaka heigulshátt,
því að samfélag þjóðanna „þarf að vera í sátt“.
 
Líta undan því það er svo flókið að skilja,
að útskýra stöðuna, hverjir sem vilja.
Líta undan og forðast að nefna orðið.
Orðið sem er einmitt, ‘þjóðarmorðið’.
 
Ég er örugg, en máttlaus,
og eg veit upp á hár,
ég á systur á Gaza með blæðandi sár.
 
Kannski er hún ein,
heyrir skerandi vein,
en hún frýs kannski stjörf,
veit að hún er of sein.
 
Kannski á hún son, eins og ég, sem var flinkur að teikna.
Fannst gaman í skóla, var góður að reikna.
Kannski á hún mann, sem hvarf í stríð.
En öll eru þau, núna liðin tíð.
*
Má ég tala?
Má ég segja?
Hvað það sker mig í sundur,
eða verð ég að þegja?
Láta ærandi þögnina kastast í kekki?
Því ég tilheyri þjóð,
sem fordæmir ekki.
 

 

Tengt efni