SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir27. mars 2024

SUMARIÐ, ER ÉG SÁ ÞIG FYRST

Nýtt kvennablað var íslenskt tímarit sem gefið var út á árunum 1940-1967. Guðrún Stefánsdóttir frá Fagraskógi stofnaði tímaritið ásamt þeim Jóhönnu Þórðardóttur og Maríu Knudsen. Í upphafi voru þær þrjár í ritstjórn blaðsins en eftir að Jóhanna og María féllu frá stóð Guðrún ein að ritstjórn þess. Fyrsta tölublaðið kom út þann 19. júní árið 1940. 

Í Nýja kvennablaðinu birtust oft kvæði og sögur eftir konur. M.a. var skáldsaga Guðrúnar frá Lundi, Afdalabarn, framhaldssaga í NK. Í tölublaðinu sem út kom í mars-apríl, 6. árg. 1945, birtist þetta fallega ljóð eftir Höllu (Lovísu) Loftsdóttur. Halla sendi frá sér eina ljóðabók um ævina, Kvæði 1975. 

SUMAR

Bráðum lifna blöð á kvist,

býr sig fold í skart.
Sumarið, er ég sá þig fyrst

var sólríkt og bjart.

 

Sumarið, er ég sá þig fyrst

var sungið í lund

yndi hvíslaði andvarinn

um aftanstund

 

Sumarnóttin mig signdi hljóð,

heyrði ég huldulag,

þá söng ég mitt fyrsta sumarljóð,

og syng það enn í dag.

 

Húmar um fold og hljóðnar lag,

hverfa vonir og menn.

Ég sá þig fyrst um sumardag,

það sumar varir enn.

 

Þó að blikni blöð á kvist

og björkin felli skart,

sumarið, er ég sá þig fyrst

er sífellt bjart.

 

Tengt efni