ÞÁ KEM ÉG AÐ SJÓNLEIKJUNUM SEM HAFA ELT MIG EINS OG SYNDIN ALLA ÆVI
Frú Eufemia Waaga (1881-1960) sest á skáldabekk í dag. Hún sendi frá sér merkar æviminningar, Lifað og leikið: Minningar, árið 1949 sem Hersteinn Pálsson skráði eftir henni. Líf hennar var sorgum stráð, fimm börn missti hún, þar af eitt 16 ára í húsbruna, og maður hennar lést 1938 eftir erfið veikindi. En aldrei lét hún deigan síga, var virk í félagsmálum og stúkustarfi til hinsta dags.
Eufemia segir í bók sinni frá bernskuárunum og lýsir miðbæ Reykjavíkur á þeim slóðum þar sem hún fæddist. Í bókinni kemur hún víða við, til dæmis segir hún frá embættismönnum og öðrum þekktum mönnum, skemmtunum Reykvíkinga fyrir aldamótin, störfum föður síns í þágu leiklistar og bindindis, aldamótunum og konungskomunni árið 1907.
Hún segir einnig frá sínum fyrstu hjúskaparárum. Hún talar um leiklistina í lífi sínu en hún var dóttir Indriða Einarssonar skálds og leikhúsfrömuðar. Hún lék á sviði alls 39 hlutverk um ævina og segir m.a. um það í bók sinni: Þá kem ég að sjónleikjunum sem hafa elt mig eins og syndin alla ævi...“
Reykjavík um 1917. Horft inn eftir Austurstræti (af Vísindavefnum)