SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Eufemia Waage

Eufemia Waage var fædd 6. janúar 1881 og lést 2. júní 1960. Hún var dóttir Indriða Einarssonar skálds og leikhússfrömuðar og konu hans, Mörthu Maríu Pétursdóttur Guðjóhnsen. Hún giftist Jens B. Waage 1902 (hann lést 1938) og eignuðust þau hjón átta börn en misstu fimm þeirra ung og var aðeins elsta barnið, Indriði Waage leikari, á lífi þegar Eufemia lést rúmlega áttræð. Alla ævi var Eufemia virk í bindindishreyfingunni, stúkufélagi frá 15 ára aldri og heiðursfélagi frá 1943.

Eftir Eufemiu liggja æviminningar sem Hersteinn Pálsson færði í letur. Þar segir hún frá bernskuárum sínum og lýsir miðbæ Reykjavíkur á þeim slóðum þar sem hún fæddist. Í bókinni kemur hún víða við, til dæmis segir hún frá embættismönnum og öðrum þekktum mönnum, skemmtunum Reykvíkinga fyrir aldamótin, störfum pabba síns í þágu leiklistar og bindindis, aldamótunum og konungskomunni árið 1907. Hún segir frá sínum fyrstu hjúskaparárum. Eins talar hún um leiklistina í lífi sínu en  hún lék 39 hlutverk hjá Leikfélagi Reykjavíkur á árunum 1905-1920: „Þá kem ég að sjónleikjunum, sem hafa elt mig eins og syndin alla mína ævi“ segir hún. Svo segir hún frá atburðum frostaveturinnn mikla árið 1918, Kötlugosi og Spænsku veikinni. 

Þórdís Gísladóttir blaðaði í endurminningum Eufemíu og segir svo frá á vefnum Druslubækur og doðrantar 2009:

„Hún var fædd á Laugavegi 5 árið 1881 og ólst upp og bjó alla tíð í Reykjavík en Eufemia dó árið 1960. Bókin er ágætislesning um bæjarbrag og lifnaðarhætti í Reykjavík á uppvaxtarárum Eufemiu á áratugunum í kringum aldamótin 1900 og þar má meðal annars lesa um matjurtagarða bæjarbúa, en menn voru komnir með kálgarða hér og þar í Reykjavík fyrir hátt í 130 árum. Meðal annars segir Eufemia matjurtagarða hafa verið á Tjarnarbakkanum vestanmegin. Hún bjó fyrstu æviárin við Tjarnargötu 3, mér skilst að húsið hafi staðið einhversstaðar við horn Vonarstrætis, en Tjörnin náði þá uppundir Alþingishús og Dómkirkju að norðan. Fjölskyldan átti stóran matjurtagarð og segir hún marga krakka hafa öfundað þau af honum.

Amma Eufemiu í móðurætt og ættingjar hennar höfðu mikinn áhuga á garðrækt. Sú kona var aldönsk í aðra ættina og hálfdönsk í hina og segir í bókinni frá því að þegar amman hitti systurson sinn, Lárus Sveinbjörnsson á götu á sumrin, en sá var einnig mikið fyrir garðyrkju, þá spurðu þau hvort annað "Hvernig er sprottið hjá þér tanta mín?" og "Hvernig er sprottið hjá þér Lárus minn?" Sömu spurningu lögðu móðir Eufemiu, Marta Pétursdóttir og systur hennar, hver fyrir aðra þegar þær hittust á förnum vegi. Það grænmeti sem ræktað var á þessum árum í Reykjavík var aðallega kartöflur, rófur, gulrætur og næpur, en hvítkál og blómkál varð ekki algengt fyrr en seinna.

Meðal annarra garðræktenda í Reykjavík á þessum tímum, sem Eufemia nefnir, eru Pétur biskup Pétursson sem var giftur Sigríði Bogadóttur, en hún var mikil garðyrkjukona og stóð hús þeirra þar sem Reykjavíkur Apótek var síðar byggt á horni Austurstrætis og Pósthússtrætis (núna er einhver veitingastaður þar). Einnig nefnir Eufemia Schierbeck landlækni sem stundaði margvíslegar ræktunartilraunir og var ásamt Árna Thorsteinssyni landfógeta hvatamaður að stofnun Garðyrkjufélags Íslands árið 1885.“

 

Heimildir: Vikan, Eining Druslubækur og doðrantar


Ritaskrá

1949 Lifað og leikið: Minningar, 239 bls., myndir og teikningar. Reykjavík: Bókfellsútgáfan h.f.

Tengt efni