SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Magnea Þuríður Ingvarsdóttir30. apríl 2024

SÓLARLAG

 
Það er kvöld við voginn og kyrrðin svo djúp
kvöldsólin sveipar allt töfrandi hjúp
það virðist allt standa í stað þessa stund
er sólin með hafinu sameinar fund.
 
Svo hljóðar fyrsta erindið úr ljóðinu hennar Bergljótar Hreinsdóttur Sólarlag. Stuðlarnir standa eins og klettar og þeir mynda vörð um töfra náttúrunnar, upplifunin er hennar en ekki síst okkar sem lesum ljóðið. Þarna væri gott að vera alla daga þar sem amstur hversdagsins er langt langt í burtu og maður og náttúra verða eitt og áfram heldur Bergljót og varpar upp enn fallegri sýn af voginum hennar hljóða,
 
Bjarminn er einstakur, birtan svo hlý
brennandi logar hvert einasta ský
í hafinu speglast og kela við stein
eitt andartak ríkir hér fegurðin ein.
 
en hve unaðslegt er að dvelja þarna með henni því kannski eru hjörtun okkar einmitt alltaf að leita að þessum frið og þessari kyrrð og svo,
 
Litirnir ljóma og lífið er stillt
hafgolan strýkur um vanga mér milt
ég stend bara hérna og steinrunnin er
sjálf veröldin heldur í höndin á mér.
 
Kærar þakkir Bergljót fyrir þetta fallega ljóð um náttúruna.
 
Bergljót er nýtt skáld hér inni hjá okkur en hún er svo sannarlega ekki nýbyrjuð að yrkja og að semja sögur því hún hefur verið ötull rithöfundur og gefið út nokkrar bækur og samið ljóð og leikrit. Velkomin Bergljót og takk fyrir þínar fallegu bækur. Sjá má hér inni höfundarverk hennar.

 

 

 

 

Tengt efni