SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Magnea Þuríður Ingvarsdóttir29. maí 2024

BÍNA BJÖRNS

Fyrir 150 árum eða þann 25. maí árið 1874 fæddist skáldkona dagsins Jakobína Björnsdóttir. Hér má lesa sér til um hana

Hún orti þennan fallega óð um innstu þrána.

Farfuglinn 
    1936 

Hvíli ég væng á hvítum voðum, 
hátt var svif á stormsins boðum, 
hossaðist létt í hrannar froðum, 
hræddist ekki breiðan sjó. 
En nú er mér flugið um og ó, 
og bönd eru í mína báða skó. 

Enginn skilur innstu þrána: 
Óðar en mjöllin fór að hlána, 
himinninn sýndist hýrna og blána, 
hug minn allan fjarlægð dró. 
En nú er mér flugið um og ó, - 
ég er bundin í báða skó.
 
Sárt er að kveðja sólskinslöndin, 
samt var þráin nýja ströndin. 
Hart var að slíta hjartans böndin, - 
harðara löngun svæfa þó. –  
En nú er mér flugið um og ó, 
og bönd eru í mína báða skó. 

Þegar úr vængjum líður lúinn, 
lyfti ég fæti altilbúin. 
Vonin er ekki frá mér flúin, 
fram undan er ljómi um sjó. 
Þó mér sé flugið um og ó 
og togi bönd í báða skó. 
 --- 
Úr ægi lyftast óskastrendur, 
út eru breiddar mjúkar hendur, 
fuglinum þreytta friður sendur, 
fegurð þreyð og dýrleg ró. 
Horfið er lífsins um og ó 
og röknuð böndin í báða skó.