SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir19. júní 2024

TÍTUPRJÓNAR OG SJÁLFSTÆÐISPÓLITÍK

Er sterk kona að baki hverjum karli eins og sagt er? Dr. Margrét Gunnarsdóttir hefur rannsakað ævi Ingibjargar Einarsdóttur, eiginkonu Jóns Sigurðssonar sjálfstæðishetju Íslands og skrifaði um hana bók. Títuprjónar og sjálfstæðispólitík á 19. öld er heiti á fyrirlestri Margrétar sem hún flutti á tónlistarhátíð í Ólafsfirði á dögunum í tilefni 80 ára lýðveldisafmælisins.
 
Margrét segir í fb-færslu 16. júní:  „Á mánudaginn kemur verða 80 ár liðin frá stofnun íslenska lýðveldisins, 17. júní 1944. Stofndagurinn var afmælisdagur Jóns Sigurðssonar eins og alþekkt er. Í þessu erindi mun ég fjalla um Jón og eiginkonu hans, Ingibjörgu Einarsdóttur.
 
Fjölbreytt störf Jóns og Ingibjargar á nítjándu öld mörkuðu veginn í leiðinni að sjálfstæði Íslands. Þannig var pólitíkin aldrei langt undan í hversdagsamstrinu. Hannyrðir Ingibjargar urðu til dæmis að líkingamáli í skrifum Jóns um pólitík en árið 1872 birtist grein eftir hann undir heitinu „Prjónakoddi stjórnarinnar“ í Nýjum Félagsritum. Ætli hugmyndin um að líkja aðgerðum dönsku stjórnarinnar við títuprjónastungur hafi ekki kviknað í huga Jóns þar sem hann sat gegnt konu sinni við skriftir? Ingibjörg hefur stungið hverjum títuprjóninum af öðrum í nálapúðann þar sem hún sat og gerði við skyrtu af Jóni eða saumaði svuntu á sjálfa sig.
 
Bróðir Ingibjargar, séra Ólafur, hrífst af líkingu frænda síns. Hann bætir við að sér finnist þjóðin líkjast prjónakoddanum vegna þess að hún „finnur ekki meir til nálastingjanna en prjónakoddi og þar í stendur mesta óheill þjóðarinnar yfir höfuð“.“
 
Bók Margrétar Gunnarsdóttur varpar nýju ljósi á hversdagslíf Ingibjargar og Jóns og bregður upp skýrri mynd af merkilegri konu sem löngum hefur staðið í skugga eiginmanns síns, segir á vef StoryTel þar sem hægt er að hlusta frítt á sýnishorn úr bókinni.

Tengt efni