VERÐLAUNASAGAN HVALREKI
Védís Eva Guðmundsdóttir hreppti verðlaunasætið í ár fyrir smásöguna Hvalreki í samkeppni á vegum Júlíönu hátíðar sögu og bóka á Stykkishólmi. Í umsögn dómnefndar segir: „Hvalreki er saga sem ef til vill mætti flokka með furðusögum enda er þar lýst atburðum sem að öllu jöfnu eru ekki taldir geta átt sér stað í raunveruleikanum. Í raun fjallar sagan þó um kunnugleg fyrirbæri úr hversdagslífinu; einsemd og þrá eftir nánd og samskiptum.“
Smásagnaritið Stelkur frumbirtir Hvalreka Védísar Evu og má lesa hana þar en sagan hefst á þessa leið:
Læknirinn taldi mig haldna ímyndunarveiki.
Það hrjáði mig ekkert annað en þörf fyrir að auðga annars hversdagslega tilveruna, sagði hann. Fráfall móður minnar á liðnu ári gæti átt þátt í þessu ástandi mínu, að mati sérfræðingsins. Eins konar móðursýki með blæbrigðum, bætti hann við og sleikti út um sprungnar varir.Afbrigðum, meinti hann eflaust.
Við hefðum nú verið nánar. Slíkt fengi á, sérlega þegar viðkomandi byggi einn.
Hefði alltaf búið einn.
Ekki var mælt með lyfjagjöf, þannig, en ef ég svæfi illa væri sjálfsagt mál að skrifa út róandi eða slævandi töflur. Samtalsmeðferð væri að sjálfsögðu ráðlögð.
Sprungnu varirnar létu staðar numið.
Þess má geta að fjórða hefti, sumarhefti, Stelksins kemur út núna á mánudaginn, 15. júlí. Það verður spennandi að sjá hvaða smásögur rata þá á þennan skemmtilega vef sem er í umsjá Þórdísar Helgadóttur og Kára Tulinius.