SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Magnea Þuríður Ingvarsdóttir 5. ágúst 2024

GRÆTUR GUÐ?

Nú í vor kom út lítið ljóðakver eftir Hjördísi Björgu Kristinsdóttur.  Kverið heitir ,,Grætur guð?" og er safn af haikum sem Hjördís hefur ort. Bókin lætur ekki mikið yfir sér er bæði hljóðlát og stillt. Bókaútgáfan Sæmundur sá um útgáfuna og hún var gefin út á yfirráðasvæði bókabæjanna austanfjalls en þeir eru hluti af alþjóðahreyfingu bókabæja (JOB) International Organisation of booktowns (booktown.net). Bókabæirnir er skemmtilegt verkefni sem hóf göngu sína árið 2014. Sjá nánar.:

booktown in Iceland, Bókabæirnir austanfjalls (bokabaeir.is)

Hjördís er ekki ókunn í bókmenntaheiminum því hún hefur bæði ort og samið skáldverk. sjá nánar.:

Skáld.is (skald.is)

Á baksíðu bókarinnar stendur að þetta sé hennar fyrsta ljóðabók og þar fjalli hún almennt um lífið og tilveruna. Ljóðin eru fábrotin, hógvær og hljóðlát.

Læðist hún yfir
þétt og grá, byrgir mér sýn
sé ekki fjallið
 
Haika er lítill bragarháttur sem finna má í japönskum ljóðum allt frá 16. öld. Ljóðin er ávallt náttúrutengd og þau veita oftast innsýn inn í náttúrutengda upplifun áhorfandans þau fjalla um árstíðirnar og aðdáun mannsins á náttúrunni. Þá samanstanda þau af ákveðnum atkvæðafjölda í aðeins 3 línum. 
 
Ég finn anga vors
lífið að vakna á ný
gott er að njóta
 
Þá má finna ást og kærleik í haikum og vegna þess hve ljóðformið er knappt er stundum snúið að koma orðum að því sem þarf að segja. Í um það bil þrettán orðum samtals og eftir mjög strangri reglu haikuformsins krefst það töluverðrar lagni en það er einmitt galdurinn við haikuna. 
 
Minning um látna vinkonu
 
Ég sit og hugsa
um þig, vinkona mín kær
sakna þín mikið
 
ég náði að sjá
og kveðja þig, mín kæra
og sagði við þig
 
þegar við hittumst
næst, munum vera saman
í himnasölum
 
þú brostir, sagðir
kæra æskuvinkona
svo mun það verða
 
Það má með sanni segja að ljóðin hennar Hjördísar séu fálát, hógvær og hljóðlát.  Alveg eins og japönsku haikurnar eiga að vera. Kristaltær og kurteis sýn á náttúruna.
 
Kveðja Magnea