Steinunn Inga Óttarsdóttir∙22. ágúst 2024
HRINGHENDA AUSTFIRSKRAR KONU
Ljóð dagsins er hringhenda eftir Margréti Sigfúsdóttur frá Skjögrastöðum sem nú fær verðugan sess í skáldatali vonum seinna. Hún notaði dulnefnið Austfirsk kona. Hún var hæfileikarík 19. aldar kona sem þrátt fyrir fátækt, missi og sorgir hélt alltaf sínu striki. Hún var sískrifandi en fátt eitt hefur birst eftir hana á prenti.
VOR
Vorið hjalla vermir stalla,
víst má kalla góða tíð.
Brekkur fjalla brosa allar,
bunur falla um græna hlíð.
Himins blíða hressir lýða
hug þótt stríðin æði grimm.
Stundir líða. Stillið kvíða
stríðs þótt tíð sé köld og dimm.
Hér má heyra upplestur á nokkrum kvæðum Margrétar frá sýningu um skáldkonuna sem sett var upp á Egilsstöðum sumarið 2024.