SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Margrét Sigfúsdóttir / Austfirsk kona

Margrét Sigfúsdóttir (1873-1955) fæddist á Skjögrastöðum í Skógum á Fljótsdalshéraði.  Foreldrar hennar þóttu greindir, fróðir og hagmæltir. Skáldgáfa var í ættinni, systurdóttir hennar var Guðfinna Þorsteinsdóttir, skáldkona,sem skrifaði undir nafninu Erla, og sonur hennar var Þorsteinn Valdimarsson ljóðskáld, tónskáld og þýðandi.

Margrét bjó lengst af í Fljótsdal og á Fáskrúðsfirði við mikla fátækt. Hún var 23ja ára þegar hún kynntist vinnumanninum Þórólfi Sigvaldasyni og þau giftu sig ári síðar og fluttu saman á Fáskrúðsfjörð. Þar störfuðu þau sem verkafólk í fiskvinnu og við sveitastörf, eignuðust tvo syni og bjuggu við bág kjör. Sæbjörn, eldri sonur Margrétar, lést aðeins 15 ára og eiginmaðurinn tveimur árum síðar. Þá flutti hún með yngri syninum, Jónasi, aftur í Fljótdalinn, en hann dó úr berklum 23ja ára. Eftir að hún var orðin ekkja og búin að missa bæði börnin sín starfaði hún fyrst sem vinnukona og farkennari á ýmsum bæjum, sem bendir til að hún hafi verið góðum gáfum gædd og fengið gott uppeldi. Síðustu áratugina átti hún heimili á Hrafnkelsstöðum og hafði þá haldið skáldskap sínum til haga af mikilli hirðusemi. 

Margrét tók virkan þátt í starfi kvenfélaga á sínum heimaslóðum, var hvatakona stofnunar Kvenfélagsins Keðjunnar í Fáskrúðsfirði árið 1907 og ritstýrði Leiftri, handskrifuðu blaði Kvenfélagsins Einingar í Fljótsdal um 17 ára skeið. Þar birti hún eigin skáldverk og annarra kvenna. Blaðið kom út í einu eintaki hverju sinni sem síðan var lesið  upp úr á kvenfélagsfundum. Síðar áttu sum verk Margrétar eftir að komast á prent í tímaritinu Hlín, Nýjum kvöldvökum og í ljóðasafninu Aldrei gleymist Austurland.

Fyrstu vísa sem til er eftir Margréti er frá því hún var átta ára.  Eftir að hún kom í Fljótsdal var húnsískrifandi og yrkjandi. Hún samdi margar smásögur og nokkrar lengri skáldsögur. Sumar þeirra birtust í tímaritinu Nýjum kvöldvökum og kvæði og greinar um ýmis efni birtust í ársritinu Hlín, þar sem hún ritaði undir nafninu Austfirsk kona.  Mesta afrek hennar á ritvellinum var þó sveitablaðið Leiftur, sem út kom á árunum 1934-1948, hún ritstýrði því allan tímann, handskrifaði það, og samdi mest af efninu sjálf. Til er heilt eintak af því í Héraðsskjalasafninu á Egilsstöðum. Þá flutti hún ræður og hugvekjur á fundum kvenfélaga og annarra samtaka. Margt af bókum og pappírum Margrétar er varðveitt í Héraðsskjalasafni Austfirðinga, þar á meðal ljóðahandrit sem spanna um 70 ára skáldaferil og hefur ekki nema brot af þeim komist á prent.

Hér er hægt að hlusta á nokkrar vísur eftir Margréti lesnar upp í tengslum við sýninguna Austfirsk kona, sem sett var upp í Safnahúsinu á Egilsstöðum í júní 2024.  Lesarar íeru Hekla Pálmadóttir, Elsa Guðný Björgvinsdóttir og Arndís Þorvaldsdóttir.

Stefán Bogi Sveinsson, forstöðumaður Héraðsskjalasafns Austfirðinga á Egilsstöðum, segir í Mbl 22. júní 2024 um Margréti í tilefni af sýningunni:

„Hún skrifar líka um eigið hlutskipti, fátæktina og vinnuna, bæði hið neikvæða og jákvæða í þeim málum, og um að erfitt hafi verið að vera til. Eins kemur vel fram hversu vel hún þekkti náttúruna og er tengd henni. Í bréfum hennar má sjá að hún hafði gott skopskyn og í sögunum fer að örla á stéttavakningu, sérstaklega gagnvart því hvernig farið var með þá sem minna máttu sín. Þegar hún bjó á Fáskrúðsfirði var hún oft fengin til að sitja yfir veiku fólki og deyjandi, en hún gagnrýni í einhverjum sögum að þeir kæmu sér undan því hlutverki sem ættu að sinna því, prestar og ríkir karlar.“

Heimildir: Héraðsskjalasafn Austfirðinga, helgihallgrims.is og Mbl 22.6.2024.


Ritaskrá

Í tímaritinu Hlín eru samtals 24 ritsmíðar eftir Margréti, þar af 11 hugleiðingar eða hugvekjur, 3 sögur og ævintýri, 2 erindi, og 7 kvæði, þar á meðal kvæðaflokkur um “Víðivallasystkinin”, sem líklega er þekktasta kvæði hennar.

Í Nýjum kvöldvökum birtust smásögurnar “Fórnir” (1950), “Eygló” (1951), og lengri saga sem heitir “Valgerður” (1952-53). Sögurnar “Bókin” og “Læknirinn” birtust aðeins í Leiftri. 

Óprentuð handrit Margrétar voru geymd hjá Guðrúnu M. Kjerúlf frá Hrafnkelsstöðum, en voru sett á Héraðsskjalasafnið um 1990. Þetta eru 8 bækur, aðallega með kvæðum, mest af þeim er óbirt. (Guðrún M. Kjerúlf: Um Margréti í jólablaði Austra 1987. Sjá einnig Æfisögu Þorsteins Kjarvals, bls. 60, um kvæðið Víðivallasystkinin).

Heimild: helgihallgrims.is, Helgi Hallgrímsson: Skáld og fræðimenn í eða úr Fljótsdal

Tengt efni