Jóna Guðbjörg Torfadóttir∙30. ágúst 2024
SKRIFAÁSKORUN Í SEPTEMBER
Splunkunýtt netnámskeið hefur göngu sína 2. september!
Næstkomandi mánudag hefur netnámskeiðið Skrifaáskorun í september göngu sína. Frá því í byrjun árs 2021 hafa yfir 500 manns tekið þátt í netnámskeiðum hjá leiðbeinandanum, Sunnu Dís Másdóttur. Þrátt fyrir fréttir af minnkandi bóklestri má þó með sanni segja að Íslendingar séu enn skrifandi þjóð! Sumir þátttakendur snúa aftur og aftur á ný námskeið og aðrir leggja til atlögu við bókarskrif í framhaldinu.
Skrifaáskorun er rafrænt ritlistarnámskeið fyrir upptekið fólk. Þátttakendur fá daglega senda kveikju í tölvupósti, stutt verkefni, sem þeir vinna þegar þeim hentar. Það eina sem þeir þurfa að gera er að taka frá fimmtán mínútur til skrifa. Öll áherslan í skrifaáskorun er nefnilega á að kveikja skrifagleðina og ræsa sköpunarvélarnar – þar er ekki hugsað um stafsetningu eða málfræði heldur að komast í flæði og finna tíma í annasömum hversdegi til þess að næra höfundinn hið innra.
Í Skrifaáskorun í september fá þátttakendur sendar 20 splunkunýjar og spennandi kveikjur auk þriggja fræðslumyndbanda frá leiðbeinanda. Þar fyrir utan býðst þáttakendum að taka þátt í rafrænum samskrifaviðburði mánudaginn 2. sept, þegar námskeiðinu er ýtt úr vör.
Námskeiðið er ætlað öllum sem hafa áhuga á því að skrifa, skapa, bulla og leika sér – því það getum við öll!
Nánari upplýsingar, og hlekk á skráningarsíðu, má finna hér.
Sunna Dís Másdóttir er með M.A.-gráðu í ritlist og starfar sem rithöfundur, þýðandi og ritlistarkennari. Sunna hefur kennt fjölmörg ritlistarnámskeið, bæði í raunheimum og netheimum, og hefur staðið fyrir rafrænum skrifaáskorunum og ritlistarnámskeiðum síðustu misseri við góðan orðstír.
Nánari upplýsingar veitir Sunna:
s. 699 3936