VEÐURFREGNIR OG JARÐARFARIR
Maó Alheimsdóttir hefur nú bæst við Skáldatalið okkar en hún mun senda frá sér skáldsögu þann 12. september næstkomandi. Skáldsagan ber skemmtilega titilinn Veðurfregnir og jarðarfarir og hlaut hún Nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta árið 2021.
Sagan er kynnt svo:
Veðurfregnir og jarðarfarir er skáldsaga þriggja kynslóða sem gerist á mismunandi stöðum: á Íslandi, í Frakklandi og Póllandi. Veðurfræðingurinn Lena, sem er aðalpersóna sögunnar, ferðast um tíma og rúm í leit að sátt við lífið og fortíðardrauga. Íslenskar veður- og náttúrulýsingar eru aðalhrynjandi sögunnar og í þeim endurspeglast tilfinningar og ástarmál veðurfræðingsins. Hugleiðingar um dauðann og missi slá mikilvægan tón í frásögninni líkt og samskipti milli mæðgna, vinkvenna og systkina.
Blásið verður til útgáfuhófs þann 12. september í Hljómskálanum, kl. 17. Það verður auglýst betur er nær dregur.