SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir25. september 2024

LJÓÐABÓK UM MEÐGÖNGU OG FÆÐINGU

Það er merkileg staðreynd að það er ekki langt síðan sú reynsla að ganga með og fæða barn varð viðfangsefni íslenskra bókmennta. Það sannreyndi ég þegar ég hélt fyrirlestur um þetta efni í Háskóla Íslands árið 1995. Og það sem kannski er ennþá furðulegra er að það efni sem ég fann þá var eftir karlhöfunda en ekki konur! Meðgöngu- og fæðingarfrásagnir karla, íslenskra sem erlendra, eru oftar en ekki í furðusagnastíl. Hér mætti minnast frásögnina af óléttu Þórbergs í Bréfi til Láru og fræga fæðingarsenu úr Gargantúa og Pantagrúl eftir franska sextándu aldar höfundinn Rabelais eða hina ógnarlöngu meðgöngu aðalpersónu í skáldsögunni The Life and Opinions of Tristam Shandy, Gentelmen eftir ensk-írska átjándu aldar höfundinn Laurence Sterne. Hjá Þórbergi er óléttufrásögnin táknsaga um sköpun, Rabelais er að skemmta lesendum með ýkjum og grótesku og sama má segja um verk Sternes en í Tristram Shandy er mikið gert úr getnaði og fæðingu sögumanns, sem reyndar fæðist ekki fyrr en í þriðja bindi af níu bindum sögunnar, vegna hins útúrdúrasama frásagnarháttar. Sjálfur líkti Sterne sköpun verksins við óléttu og kvaðst hafa „misst fóstur“ nokkrum sinnum í skriftarferlinu. Við könnumst við slíkt orðalag; meðganga og fæðing sem metafóra fyrir tilurð listaverks er alþekkt klisja.

Í ljóðabók Draumeyjar Aradóttur, Einurð, er meðgöngu og fæðingu barns lýst á áhrifaríkan hátt og að mestu út frá sjónarhorni fóstursins. Í dag birtist ritdómur um þessa mögnuðu bók Draumeyjar á vefnum okkar.

 

Tengt efni