SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir25. september 2024

„ÞANNIG HVERFIST ÉG“. Einurð eftir Draumeyju Aradóttur

Draumey Aradóttir. Einurð. Sæmundur 2024, 71 bls.

 

Það er kjarni og það er yfirborð
það er rót og það er birtingarmynd

 

Þessi hending kemur tvisvar sinnum fyrir í ljóðabókinni Einurð eftir Draumeyju Aradóttur sem kom út snemma á þessu ári og hlaut mjög góðar viðtökur. Svo góðar, reyndar, að nýverið var nýju upplagi dreift í búðir; það fyrsta vafalaust uppselt því bókin var lengi á metsölulista íslenskra ljóðabóka.

Ofan nefnd hending nær vel að kjarna megin viðfangsefni bókarinnar um leið og hún gæti allt eins staðið sem lýsing á ljóðlistinni sjálfri sem fyrirbæri. Titill bókarinnar kallast á við titil ljóðabókarinnar Varurð sem Draumey sendi frá sér fyrir tveimur árum og vakti einnig verðskuldaða athygli.

Einurð skiptist í fjóra hluta en saman mynda þeir eina heild sem fjallar um getnað, fæðingu og líf einstaklings sem er einhverfur og tileinkar höfundur verkið „öllum börnum og öllum fullorðnum á einhverfurófi“, eins og fram kemur í byrjun bókar, ásamt hvatningunni: „Lifi fjölbreytileiki mannflórunnar!“ Öll ljóð bókarinnar hnitast um tilveru hins einhverfa einstaklings sem fær einnig hlutverk ljóðmælanda verksins. Fyrsti hluti fjallar um sjálfan getnaðinn þar sem ljóðmælandi ávarpar móður sína:

 

 

EINN TIL VITNIS
 
Þú gast ekki vitað
 
hvernig sorgarsaltir líkamarnir
kveiktu gneistann þetta kvöld
þessa nótt
 
þið gátuð hvorugt vitað það
 
en ég var þar
einn
til vitnis

 

Bókin hefst á því að líf kviknar í kviði líkama sem er saltur af sorg því stuttu áður hefur annað líf slokknað af völdum slyss og móðirin er á valdi harms sem er lýst á afar áhrifaríkan hátt í þessum fyrsta hluta verksins. Andstæðurnar ljós sem slokknar og ljós sem kviknar eru dregnar fram í þriðja og fjórða ljóði bókarinnar og liggja síðan sem rauður þráður í gegnum hana alla í ýmsum tilbrigðum. Lífsgneisti ljóðmælanda „má sín lítils / gegn hamslausri sorg“ móðurinnar en hann býr „sér ból / í hljóðri hvelfingunni / hangi[r] á þrályndinu einu“, eins og segir í ljóðinu HELVEGUR. Draumey dregur upp sterkar og áhrifaríkar myndir af baráttu fóstrins/ljóðmælanda fyrir lífi sínu sem hefur þó þá einurð sem dugar:

 

FESTA
 
Mér er vart huguð tilvist
í lasburða líkama þínum
 
en einurð er eðli mitt
og ég læsi píanófingrunum
löngum og grönnum
í gljúpan hellisvegginn
og held mér fast
 
harðákveðinn
að vera um kyrrt

 

Fóstrið þráir að móðirin verði sín vör, það er „hjá þér, í þér, með þér“ en „áfallið hefur krýnt þig sorgarsveig / og firrt allri annarri kennd“. Þegar móðirin „vaknar loks til vitundar“ um lífið sem hún ber undir brjósti víkur sorgin „um hríð“ en áfallið býr áfram með henni og fóstrinu.

Draumey hefur í viðtölum rætt um hugmyndir um arfgengi áfalla og að þau geti jafnvel sett mark sitt á fóstur í móðurkviði. Með slíkar hugmyndir vinnur hún í Einurð eins og fram kemur í ljóðinu „Var“, sem er í þrettán hlutum og myndar annan hluta bókarinnar. Það hefst á þessum ljóðlínum:

 

Langminnugar frumur líkama þíns færa mér
uppsafnaða reynslu formæðra okkar og forfeðra
 
langræknar flytja þær mér áfram niður keðjuna
allar ástir og afrek
alla ósigra og áföll
 
rista ljóðrúnir á legveggina
sem ég les mig í gegnum næstu vikur og mánuði
en endist ekki ævin til að ráða

 

Í öðru ljóði vitnar ljóðmælandi til samtals við móðurina, þar sem þessi skoðun um arfgengi áfalla er ítrekuð:

 

Þú varst svo þver
skýrirðu fyrir mér áratugum síðar
þegar við stiklum á stóru í áfallasögu minni
með nýskipuðu heilsuteyminu
 
og þeim nægir ekki að heyra um
skólagönguna, leikskóladvölina, fæðinguna
eða fyrstu mánuði ævi minnar
 
nei, þau kunna sitt fag
skilja
og vilja vita
allt um meðgönguna
líðan mína og þína
aðstæðurnar, áfallið
 
vilja heyra allt
frá því að sorgarsaltir líkamar ykkar
kveiktu gneista minn þessa kvöld, þessa nótt
sem eitt líf öðlaðist form
annað yfirgaf sitt

 

Þessi hluti ljóðabókarinnar fjallar um meðgönguna, hvernig ljóðmælandinn og móðirin „ferðast með sama fari níu mánaða leið“ og finna hjörtu sín slá í takt. „Allt er eins og það á að vera“ er úrskurður ljósmóður um meðgönguna en ljóðmælandi veit betur:

 

Allt nema ég sem sný vitlaust
miðað við legið, legkökuna, leghálsinn, þig
 
miðað við umheiminn
eins og hann hefur verið skilgreindur
af vel greiddum herrum í stífpressuðum skyrtum
gljáfægðum skóm

 

Draumey vinnur skemmtilega úr hugmyndinni um fóstrið sem snýr öfugt, „miðað við umheiminn“ og hið einarða eðli þess að „spyrna við fótum þegar á [það] er þrýst“. Fæðingin gengur erfiðlega, af þessum sökum, en þriðji hluti bókarinnar lýsir fæðingunni þar sem ljóðmælandi og móðir hans eru „hvort tveggja í senn / mótherjar og málsvarar“ og vilja „hvort sína leið að sama marki / að þjáningunum linni“. Vandinn er hins vegar þessi:

 

þú vilt mig út
ég vil vera um kyrrt

 

Í nokkrum ljóðum er lýst á magnaðan hátt hvernig ljóðmælandinn kýs einveru og afmarkað rými, vill fremur dvelja áfram í „friðlýstum hellinum“ en koma út ljósið og „háreystina“. Frá sjálfri fæðingunni er sagt í ellefu ljóðum í þriðja hluta og þar er byggð upp markviss stígandi, allt frá því fyrsta þar sem ljóðmælandi þreifar „ráðvilltur eftir andrými“ og „móki[r] milli hríða“ og skynjar ofsafengna ógn sem margelfd ríður röftum „á friðlýstum hellinum // reisir brimskafla sem skella á mér / einn af öðrum“, þar til lýst er ofbeldisfullri tangarfæðingu með hrollvekjandi myndmáli:

 

Harðir, kaldir járnglófar
brjóta sér leið inn með blóði drifnum
veggjunum
 
þrengja sér óboðnir inn í helgidóminn
lengra sífellt lengra inn
innar og innar
 
[…]
 
járnharðir og kaldir
grípa þeir dauðataki um höfuð mitt
herða að gagnaugum
kjálkum
höku
 
eira engu
 
herða, draga, sprengja sundur
mjaðmagrind þína
og himin og jörð
og öll norðurljós
alheims
 
sprengja það allt sundur í
þúsund stjarna regn

 

Lokahluti Einurðar geymir ljóðið ÞANNIG HVERFIST ÉG þar sem ljóðmælandi lýsir því hvernig hann „hverfist". Ljóðið hefst á hendingunni sem vitnað var til hér í upphafi og ‚yfirborðinu‘ og ‚birtingarmyndinni‘ stillt upp á móti ‚kjarnanum‘ sem „er sá / að einmitt þannig hverfist ég / og mun alla tíð gera // til einveru / en ekki til samskipta“.

Í nokkrum ljóðum er lýst á fallegan hátt nokkurs konar tengslum á milli ljóðmælanda og þess sem dó og var syrgður á tíma getnaðarins: „Mitt á milli myrkurs og ljóss / mætumst við“ segir í ljóði sem lýsir stund fæðingarinnar, „ég er hann og hann er ég / ein og sama vitund / gneistar sama elds“.

Ekki er hægt að skilja við þessa ljóðabók án þess að fara nokkrum orðum um fallega hönnun hennar og útlit, sem Aðalsteinn Svanur Sigfússon á heiðurinn af. Á bókarkápunni er fallegt málverk eftir Írisi Ólafsdóttur í ljósum litum þar sem stakur kuðungur liggur í vinstra horni baksíðunnar. Á innsíðum bókarinnar rekst lesandi síðan aftur og aftur á teikningar af kuðungi sem fer sístækkandi eftir því sem lengra er flett. Á opnunni sem markar síðustu kaflaskil bókarinnar er kuðungurinn orðinn allstór og þá hefur mynd hans fléttast órjúfanlega inn í ljóðtextann og myndmál hans. Kuðungurinn er mögnuð mynd af því sjálfi sem lýst er í verkinu, um leið og form hans minnir á sístækkandi legið þar sem ljóðmælandi dvelur í fyrri hluta verksins. En fyrst og fremst tengist kuðungurinn sjálfsmynd og líðan ljóðmælanda eins og lýst er til að mynda í þessu ljóði:

 

Hvert sinn sem þjarmað er að mér
dreg ég mig saman í felulitan kuðung
dreg mig undan
 
hverf

 

Mynd kuðungsins er snilldarlega samofin ljóðtextanum, stundum í umbreyttu formi – „sit þar sem fastast / samandreginn snigill / í strýtulaga skel“ – og stök orð eins og „öldurót“ og „lygn og ró undirdjúpin“ tengjast einnig kuðungnum í vitund lesandans.

Með síðustu tveimur ljóðabókum sínum, Varurð og Einurð, hefur Draumey Aradóttir markað sé bás meðal áhugaverðustu ljóðskálda á Íslandi. Báðar eru bækurnar marglaga og þola endurtekinn lestur. Þótt ótrúlegt megi virðast er tiltölulega stutt síðan sú reynsla að ganga með og fæða barn varð viðfangsefni í íslenskum bókmenntum og gæti ég trúað að lýsing Draumeyjar á þeirri reynslu ætti ein og sér eftir að tryggja það að nýir og nýir lesendur muni leita í ljóðin í Einurð til að máta sig við þá reynslu sem þar er lýst.

 

 

Tengt efni