VERULEIKI DRAUMANNA - Endurminningar Ingibjargar Haraldsdóttur
Ingibjörg Haraldsdóttir (1942-2016), hið merka skáld og frábæri þýðandi, sendi frá sér óvenjulega bók árið 2007. Óvenjulega að því leyti að hún inniheldur endurminningar Ingibjargar en hún var hlédræg og fámál um eigin hag almennt.
Bókin heitir Veruleiki draumanna og segir frá uppvexti Ingibjargar við kröpp kjör, æskuárum í Kópavogi, námi í Moskvu, ferðalögunum, skáldskapnum og ástinni. Bókin er einkar vel skrifuð eins og við er að búast og varpar ljósi á líf og samfélag á seinni hluta 20. aldar, tilurð skálds og lífsreyndrar konu.
Ingibjörg var eldheitur femínisti. Konur, kvenmyndir og staða skáldkvenna í bókmenntaheiminum voru henni hugleikin viðfangsefni. Í fyrirlestri sem hún hélt í Norræna húsinu árið 2005 sagði hún m.a.: „
Á einhvern hátt erum við alltaf byrjendur, hver ný skáldkona er Júlíana Jónsdóttir om igen, stúlka sem passar ekki inn í hefðina af því að þar eru fyrir eintómir karlar. Annað hvort lendir hún utanborðs og reynir bara að gleyma þessu, eða hún setur undir sig hausinn og þráast við, storkar hefðinni, hvort sem hún er þess meðvituð eður ei.“
Og Ingibjörg setti svo sannarlega undir sig hausinn; höfuð konunnar sem hún orti um 1995 og frægt er orðið.