SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir16. apríl 2023

LJÓÐ DAGSINS - Angist eftir Ingibjörgu Haraldsdóttur

Ljóð dagsins er eftir skáldkonuna og þýðandann Ingibjörgu Haraldsdóttur.

Ingibjörg (1942-2016) sendi frá sér sjö ljóðabækur og kom fyrsta ljóðabók hennar, Þangað vil ég fljúga, út árið 1974. Hún var þó ekki síður þekkt fyrir geysivandaðar þýðingar sínar úr rússnesku og má þakka henni að við eigum helstu lykilverk rússneskra bókmennta á íslensku. Hér má hlýða á nýlegan þátt Gunnars Þorra Pétursson, Rús, þar sem hann talar við Kristinu Eiríksdóttir um þetta þrekvirki móður hennar.

Ljóðið Angist birtist í ljóðabókinni Orðspor daganna sem kom út árið 1983 og aftur í Ljóðasafni hennar árið 2009.

 

 

Angist
 
Djúpt niðri í moldinni
nagar hún rótina
hægt en markvisst
þartil einn daginn 
- ég veit hann kemur -
að hún nagar mig í sundur
og eitthvað af mér
þeytist stjórnlaust
út í buskann
hverfur útum eldhúsgluggann
 
hitt verður eftir
og klárar uppvaskið

 

 

Tengt efni