SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir16. október 2024

NÓBELSVERÐLAUNAHAFINN HAN KANG

Hin suður-kóreska Han Kang hreppti Nóbelsverðlaunin í ár fyrir „ákafan ljóðrænan prósa sem tekur á sögulegum áföllum og afhjúpar viðkvæmni mannlífsins" líkt og það er orðað í umfjöllun RÚV.

Han Kang er fædd árið 1970 í Gwangju en fjölskyldan flutti til Seúl þegar hún var 10 ára gömul. Hún nam kóreskar bókmenntir og hóf sinn rithöfundaferil árið 1993. Hún hefur sent frá sér ljóð, smásögur og skáldsögur og hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir verk sín. Han Kang hefur einnig sinnt bæði myndlist og tónlist, líkt og sjá má á heimasíðu hennar.

Einungis eitt verk Han Kang hefur verið þýtt yfir á íslensku en það er 채식주의자 sem nefnist Grænmetisætan á hinu ylhýra og kom út árið 2017 í þýðingu Ingunnar Snædal. Bókin hlaut m.a. Man Booker-verðlaunin árið 2016. Hún hefur verið þýdd á fjölda tungumála og fengið lofsamlega dóma. Um söguna segir:

Yeong-Hye og eiginmaður hennar lifa afar venjulegu lífi. Hann vinnur á skrifstofu en hún sinnir húsmóðurhlutverkinu af skyldu fremur en áhuga. Dag einn ákveður hún að gerast grænmetisæta. ,,Mig var að dreyma,“ er eina skýringin sem hún gefur – í samfélagi þar sem það er bæði hneyksli og skammarlegt að borða ekki kjöt.