30. BÓKIN Í ÞÝÐINGAFLOKKI ANGÚSTÚRU
Ástæða er til að vekja athygli á bókinni PERSEPOLIS eftir íranska höfundinn Marjane Satrapi sem er þrítugasta bókin í frábærum þýðingaflokki bókaútgáfunnar Angústúru þar sem framúrskarandi samtímabókmenntir eru gefnar út í vönduðum þýðingum, oftast með fróðlegum eftirmálum um höfund og verk.
PERSEPOLIS er sjálfsævisöguleg myndasaga sem kom fyrst út í Frakklandi 2002. Verkið gefur góða innsýn inn í líf ungrar konu í Íran á tímum íslömsku byltingarinnar.
Snæfríður Þorsteins þýðir bókin en það er einmitt hún sem á heiðurinn af einfaldri en fallegri hönnun allra bókanna í þessum flokki en þær koma út í saumaðri kilju í fremur litlu broti, sannkallaðar vasabækur.
Hægt er að gerast áskrifandi að bókaflokknum og fá glænýja þýðingu senda heim fjórum sinnum á ári á viðráðanlegu verði.
PERSEPOLIS er að mati New York Times og Guardian ein af 100 bestu bókum 21. aldarinnar.
Í kynningu Angústúru segir:
Persepólis er ógleymanleg uppvaxtarsaga íranska höfundarins Marjane Satrapi (f. 1969) sem fór sigurför um heiminn þegar hún kom fyrst út. Spaugilegar hversdagssenur í lífi höfundar og harmleikur þjóðar fléttast listilega saman í þessari rómuðu myndasögu sem lætur engan ósnortinn.
Við mælum með þessum frábæra flokki þýðinga sem hófst árið 2017 og er enn í fullum gangi, þökk sé áskrifendum sem gera svona útgáfu á þýðingum mögulega.