ÁRLJÓÐ OG ÁHUGAVERÐ SKÁLDKONA
Árið hófst með árljóðalestri í Iðnó. Það er jafnan góð byrjun á nýju ári en þetta er í áttunda sinn sem boðið er upp á þennan viðburð. Umsjón með honum hafa Kristín Ómarsdóttir og Ragnar Helgi Ólafsson. Lengst af fór hann fram í Gröndalshúsi en hefur nú færst yfir í Iðnó, með fallegu útsýni yfir Tjörnina. Lesið var frá sólaruppkomu til sólseturs og steig fjöldi skálda á stokk. Ljóðlesturinn var tekinn upp og má nálgast hann allan i Sarpi RÚV.
Líkt og fyrr segir lásu fjölmörg skáld upp ljóð sín, bæði þekkt og minna þekkt. Vert er að nefna hér eina unga skáldkonu sem er að stíga sín fyrstu skref og á sjálfsagt eftir að kveða meira að. Hún heitir Anna Rós Árnadóttir og er 24 ára gamall meistaranemi í bókmenntafræði. Hún er hluti af ljóðakollektívinu Múkk og það mun birtast eftir hana þýðing á afar áhugaverðu ljóði eftir kínverska skáldkonu í næsta tölublaði Tímarits Máls og menningar. Anna Rós las þýðingu sína ásamt nokkrum frumsömdum ljóðum sem enn eru óútgefin en munu vonandi fljótlega rata á bók.