SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir22. febrúar 2025

KONUVÍSUR, "FYRIRGEFIÐ FLJÓÐIN GÓÐ"

Í tilefni konudagsins er rifjað upp að ortar voru forðum Konuvísur sem lesa má hér.

Höfundur þeirra, Helga Pálsdóttir, var fædd 1877, ári eftir að Stúlka, fyrsta ljóðabók eftir konu kom út á Íslandi. Hún naut varla nokkurrar skólagöngu en hafði mikla unun af skáldskap. Helga var fátæk vinnukona, lengst af á Grjótá í Fljótshlíð og var kennd við bæinn. Hún var ógift og barnlaus, vann hörðum höndum allt sitt líf en orti í sínum fáu frístundum og allmikið safn kvæða liggur eftir hana.

Úrval og heildarsafn ljóða Helgu kom út á bók 2016.  Í formála Hörpu Rúnar Kristjánsdóttur kemur fram að fyrir Helgu hafi ljóðlistin fyrst og fremst verið nytjalist en hún orti mest erfiljóð og tækifæriskvæði, bæði eftir pöntun og af djúpri skáldskaparást. 

Kvæði Helgu eru í anda rótgróinnar skáldskaparhefðar, bæði í efnistökum og formi. Tískustraumar eins og nýrómantík eða formbylting snertu hana ekki baun. En það er aðdáunarvert hvað vinnulúin alþýðukona beitir leikandi létt fyrir sig fjölbreyttum bragarháttum, s.s. braghendum og hringhendum sem eru ekkert lamb að leika sér við.

Árið sem íslenskar konur fengu kosningarétt yrkir Helga heillangt kvæði sem hún nefnir Konuvísur þar sem húsfreyjur í Fljótshlíð, "forráðskonur allar" (en ekki vinnukonur) eru nafngreindar og kostir þeirra tíundaðir. 

Konuvísum lýkur svo:

Hagyrðingar, lasin ljóð
lagið þau með prýði.
Fyrirgefið, fljóðin góð
fátækt vísnasmíði.
 
Síðan fæddist  Kristur klár
- kærleiks  ljósið blíða -
tuttugustu aldar ár
er fimmtánda að líða.
 
Nafn mitt harla nærgætnir
námsmenn þýða í friði,
sem í anda upplýstir
eru af sólarsmiði.

Helga yrkir ekki margt um sjálfa sig en þó má túlka sum kvæða hennar svo að líf hennar hafi verið dapurlegt á stundum og hún beðið skipbrot í ástamálum.  Hún lést 1973.

 

Tengt efni