Jóna Guðbjörg Torfadóttir∙26. febrúar 2025
FRUMBIRTING LJÓÐA EFTIR EYRÚNU ÓSK

Fyrra ljóðið fjallar á afar ljóðrænan hátt um hvernig goshræringar hreyfa við manneskjunni svo að hún og jörðin eru eitt. Það er öllu stilltara seinna ljóðið sem hverfist um hamingjuna sem fæst á því augnabliki þegar staldrað er við.
Gos í uppsiglingu
Heyri spennuna magnast
eins og núningur á taugakerfið
drunurnar æða gegnum loftið
og skella á hljóðhimnunni
svo fer allt að skjálfa
og spennan sem áður dvaldi í jörðu
dvelur nú á hörundinu
í beinum og vöðvum og vefjum
og svo fer ég að skjálfa
og við skjálfum saman
jörðin og ég
og spennan eykst og vex
og bráðum förum við að gjósa.
Í augnablikinu
Allar heimsins áhyggjur
eru að sinna öðru.
Staldra við
mæti sjálfri mér
og þarna í augnablikinu
er hamingjan.