SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir26. febrúar 2025

FRUMBIRTING LJÓÐA EFTIR EYRÚNU ÓSK

Skáld.is frumbirtir tvö ljóð eftir Eyrúnu Ósk Jónsdóttur skáldkonu, leikstjóra og leikara. Eyrún Ósk byrjaði snemma að skrifa og gaf út sína fyrstu ljóðabók aðeins 16 ára gömul. Síðan þá hefur hún gefið út margar ljóðabækur, skáldsögur og myndskreyttar barnabækur og hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir.
 
Fyrra ljóðið fjallar á afar ljóðrænan hátt um hvernig goshræringar hreyfa við manneskjunni svo að hún og jörðin eru eitt. Það er öllu stilltara seinna ljóðið sem hverfist um hamingjuna sem fæst á því augnabliki þegar staldrað er við. 
 
 
Gos í uppsiglingu
 
Heyri spennuna magnast
eins og núningur á taugakerfið
 
drunurnar æða gegnum loftið
og skella á hljóðhimnunni
svo fer allt að skjálfa
 
og spennan sem áður dvaldi í jörðu
dvelur nú á hörundinu
í beinum og vöðvum og vefjum
og svo fer ég að skjálfa
og við skjálfum saman
jörðin og ég
 
og spennan eykst og vex
og bráðum förum við að gjósa.
 
 

Í augnablikinu

Allar heimsins áhyggjur
eru að sinna öðru.
Staldra við
mæti sjálfri mér
og þarna í augnablikinu
er hamingjan.