SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Eyrún Ósk Jónsdóttir

Eyrún Ósk Jónsdóttir fæddist árið 1981 og ólst upp í Kópavogi og Hafnarfirði.

Eyrún á að baki feril sem rithöfundur, leikari og leikstjóri. Hún gaf út sína fyrstu ljóðabók 16 ára gömul, árið 1997, en síðan þá hefur hún gefið út margar ljóðabækur, skáldsögur og myndskreyttar barnabækur. Hún útskrifaðist árið 2001 úr Flensborgarskólanum í Hafnarfirði og hélt til London þar sem hún hóf nám í leiklist við Rose Bruford College. Hún sótti síðan skiptinám í Madrid árið 2004 við Real escuela de arte dramatico. Eyrún útskrifaðist með BA-gráðu í evrópskri leiklist frá Rose Bruford College á Englandi árið 2005 og lauk síðar meistaragráðu í fjölmiðlun og þróunarfræðum frá Winchester University á Englandi árið 2007.

Eyrún kenndi leiklist til fjölda ára í Flensborgarskólanum og í nokkrum grunnskólum í Hafnarfirði. Hún rak um tíma leiklistarrýmið Jaðarleikhúsið, sem var staðsett í Hafnarfirði þar sem hún framleiddi ýmis verk.

Hún hefur leikstýrt bæði leikritum, stuttmyndum og kvikmynd í fullri lengd. Þá hefur hún leikið fjölbreytt hlutverk í leikritum, gjörningum, kvikmyndum og sjónvarpsþáttaröðum, auk þess sem hún hefur gefið út röð hlaðvarpsleikrita með leikhópi sínum, Listahópurinn Kvistur. Þá hefur hún einnig haldið úti hlaðvarpi og verið með útvarpspistla um friðar- og trúmál.   

Eyrún vann bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2016 fyrir ljóðabók sína Góðfúslegt leyfi til sígarettukaupa. Þá hefur hún hlotið fleiri verðlaun, bæði fyrir ritstörf og félagsstörf.

Auk þess að senda frá sér skáldsögur og ljóðabækur hefur Eyrún skrifað fjöldann allan af greinum og flutt fyrirlestra, m.a. um friðarmál og mannúðarheimspeki búddisma. Hún hefur einnig starfað við þýðingar. Þá hefur Eyrún tekið þátt í stjórnmálastarfi og setið í hinum ýmsu nefndum og ráðum og verið varabæjarfulltrúi í Hafnarfirði. Hún hefur verið virkur þátttakandi í störfum friðarhreyfinga og unnið við ýmis önnur félagsstörf.

Eyrún á einn son. Hún er gift Sverri Jörstad Sverrissyni og býr í Hafnarfirði.


Ritaskrá

 • 2022  Stórsæ stjarnfræðileg fyrirbæri - og önnur málefni hjartans
 • 2022  Tvítaktur
 • 2021  Í svartnættinu miðju skín ljós. Ljóðaviðtöl
 • 2020  Guðrúnarkviða
 • 2020  Einmana
 • 2019  Mamma, má ég segja þér?
 • 2018  Í huganum ráðgeri morð
 • 2017  Ferðin til Mars
 • 2017  Skrímslin í Hraunlandi á ensku og íslensku
 • 2016  Góðfúslegt leyfi til sígarettukaupa
 • 2016  Leikkonan og fíflið
 • 2015  Bergnuminn
 • 2014  L7: söngur snáksins
 • 2013  Lórelei
 • 2013  Doría
 • 2013  Hættur
 • 2013  Ferðin til himna
 • 2010  L7: Hrafnar, sóleyjar og myrra                                              
 • 2008  Ósynd (stuttmynd)
 • 2007  Superhero
 • 2005  Fear
 • 2004  Beauty
 • 1999  Til vina minna
 • 1997  Gjöf

 

Verðlaun og viðurkenningar

 • 2021  Þriðja sæti í smásagnasamkeppni Húsfreyjunnar og verðlaun fyrir frumlegustu söguna í sömu keppni
 • 2019  Viðurkenning fyrir ljóð í ljóðasamkeppni Húsfreyjunnar fyrir ljóðið Minningar erfast
 • 2019  Þriðja sæti í ljóðasamkeppni Ljósanætur fyrir ljóðið Ljósaheimur
 • 2019  Sérstök viðurkenning fyrir ljóðið Mamma má ég segja þér, í keppninni um Ljóðstaf Jóns úr Vör
 • 2016  Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir Góðfúslegt leyfi til sígarettukaupa
 • 2016  Örleikjasamkeppni Uppsprettunnar fyrir Leikkonan og fíflið
 • 2013  Leikritasamkeppni Act Alone fyrir Doría
 • 2013  Viðurkenning fyrir leikritið Ferðin til Himna valið inn í höfundasmiðju Leikskáldafélagsins
 • 2011  Hvatningarviðurkenning Rótarýklúbbsins Straums
 • 2011  Fyrirmyndarverkefni Evrópu unga fólksins, besta verkefni evrópskrar ungmennaviku.
 • 2006  Ritgerðarsamkeppni Japanska sendiráðsins á Íslandi
 • 2006  Hvatningarverðlaun Hafnarfjarðarbæjar til ungs listamanns.
 • 2005  SGI Canada Rainbow Award
 • 2000  Ritgerðarsamkeppni Íslenska utanríkisráðuneytisins

 

Þýðingar

 • 2021  Daisaku Ikeda: Samræður um frið

 

Tengt efni