SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir17. mars 2025

FYRSTA LJÓÐABÓK EYRÚNAR INGADÓTTUR

Eyrún Ingadóttir sendi frá sér sína fyrstu ljóðabók síðastliðið haust. Bókin hefur titilinn UPPHAFSHÖGG og undirtitilinn: Ljóð um listina að spila golf. Ekki er þó víst að taka eigi þennan undirtitil of alvarlega - það kann að vera að í golf-íþróttinni sé fólgin táknsaga fyrir lífið sjálft og jafnvel ástina. Það verður þó hver lesandi að gera upp við sjálfan sig.

Ljóðabók Eyrúnar er óvenju glæsileg í formi og ytri búnaði. Pappír er vandaður og allar síður með litprentuðum myndum sem ljóðtextinn er prentaður á. Myndirnar gætu verið af golfvelli - sléttum flötum og sandgryfjum - eða þær gætu hver og ein verið abstrakt-listaverk. Heiðurinn af myndunum á Gabríel Benedikt Bachmann.

Ljóð Eyrúnar eru hugvekjandi og segja sögu sem gaman er að pæla í. Eitt þeirra ber yfirskriftina ÁSTIN Á NÍTJÁNDU og er svona:

 

þú sem hélst
að allt væri búið
þegar drifhöggið
geigaði á sautjándu braut
 
fórst þess í stað
holu í höggi
á þeirri nítjándu
 
vissir ekki
að hægt væri
að spila vel
utan vallar
 
fannst
nýjan rástíma
annan félaga
á leikvelli lífsins

 

Tengt efni