FRUMRAUN VÖLU HAUKS FAGNAÐ Í DAG
Nýrri ljóðabók verður fagnað í dag í Eymundsson á Skólavörðustíg klukkan 16:30. Lofað er léttum veitingum og ljúfum harmónikkutónum og verður bókin á útgáfutilboði.
Ljóðabókin Félagsland er frumraun Völu Hauksdóttur en hún hefur þó náð að sanna sig á velli skálda því hún hreppti Ljóðstafinn í fyrra og fékk auk þess viðurkenningu fyrir annað ljóð í sömu keppni, sem kennd er við Jón úr Vör. Hér má lesa vinningsljóð Völu.
Um ljóðabókina segir:
Félagsland er fyrsta ljóðabók Völu Hauks, handhafa Ljóðstafs Jóns úr Vör árið 2024. Í bókinni eru tæp fimmtíu ljóð og rauður þráður hennar eru félagsheimili landsins fyrr og nú, hlutverk þeirra og þýðing, andblær og ásýnd. Ljósmyndir af þeim vettvangi gefa tóninn.
Vala Hauks (f. 1992) er skáld og ferðamálafræðingur sem býr á Selfossi og stundar meistaranám í ritlist við Háskóla Íslands. Árið 2024 hlaut hún Ljóðstaf Jóns úr Vör fyrir ljóðið ,,Verk að finna" og árið 2025 fékk annað ljóð eftir hana, ,,Svipting", sérstaka viðurkenningu dómnefndar í sömu samkeppni.
Vala hefur vakið athygli fyrir sterk og beinskeytt ljóð sín, skýrt myndmál, léttleika og óvanalega sýn. Hún yrkir um lífið í landinu, samfélag og menningu, litbrigði náttúrunnar og hugans, beiskju og sátt, strjála byggð og samvistir við annað fólk.