SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 7. ágúst 2025

ORÐABÖND - BÓK SEM BINDUR SAMAN KONUR OG ORÐ

Orðabönd er ný bók sem kom út þann 19. júní – á  Kvenréttindadaginn og  er sú dagsetning engin  tilviljun og vel við hæfi þar sem Orðabönd er kvennaútgáfa frá upphafi til enda: skrifuð af konum, hönnuð af konu, ritstýrð af konu, yfirlesin af konu – jafnvel letrið er hannað af konu.

Þetta er bók sem sprettur upp úr samveru og samræðu fimm kvenna sem hittust hjá skáldkonunni Vigdísi Grímsdóttur í heimsfaraldri, drukku í sig orðin hennar með kaffibollanum og ákváðu í kjölfarið að gefa sínum eigin orðum frelsi. 

Eftirmálann skrifar Vígdís sem lýsir bókinni sem gjöf til allra sem njóta þess að lesa: 

Bókin skannar litróf lífsins; fegurðina, ljótleikann, gleðina, sorgina, allt þetta og miklu meira í dásamlegri fléttu alvarleika og húmors. Eftir lesturinn gengur maður í fjöru, hugleiðir óvænt formið og spennuna í tungumálinu, sér þá skyndilega glitta í eitthvað milli steina og kemur auga á perlu í opinni skel - og alveg eins og í ævintýri - starir maður í perluna og sér að inní henni, með örfínu letri, stendur Orðabönd. Ótrúlegt en alveg dagsatt. Bókin er gjöf til allra sem njóta þess að lesa…

 

Í bókinni eru 51 smásaga, örsögur og ljóð – eftir þær Brynhildi Auðbjargardóttur, Hrefnu Róbertsdóttur, Hrund Apríl Guðmundsdóttur, Steinunni Þorsteinsdóttur og Sveinbjörgu Sveinsdóttur. Ritstjóri er Guðrún Steinþórsdótir.

Orðabönd er  bók sem bindur saman orð og fimm konur – hugrökk, óvægin, heiðarleg og undurfalleg biður hún fólk að staldra við og njóta orðanna.

Hægt er að nálgast bókina með því að heimsækja Facebook-síðu hennar eða senda póst beint á kapurnar5@gmail.com 

Hér er hægt að lesa viðtöl við höfundana sem birtust á Visir og Lifðu núna