Steinunn Inga Óttarsdóttir∙18. september 2025
NJÁLUREFILLINN, FYRIRLESTUR UM SKÖPUNARFERLIÐ
Kristín Ragna Gunnarsdóttir, teiknari og rithöfundur, segir frá gerð Njálurefils sem hún hannaði og teiknaði og fjöldi manns tók þátt í að sauma. Fyrirlesturinn fer fram í Eddu, Arngrímsgötu 5 í Reykjavík, á laugardaginn kl 13 og er haldinn í tengslum við sýninguna Heimur í orðum.
Njálurefillinn er um 90 metra langur og 50 sentimetra breiður refill sem lýsir atburðum í Brennu-Njálssögu. Myndir og texti úr sögunni eru prentuð á hördúk og saumað með refilsaumi. Fyrirmyndin af reflinum er Bayeux refillinn frægi, en hann er talinn hafa verið saumaður á 11. öld.
Í byrjun árs 2013 var fyrsta sporið tekið í Njálurefilinn, en síðan þá hafa þúsundir tekið þátt í að sauma hann.
Kristín Ragna hannaði refilinn og teiknaði myndirnar. Fjallasaum ehf., stendur að baki verkefninu, en hugmyndavinna og undirbúningur var í höndum Christinu M. Bengtsson og Gunnhildar Eddu Kristjánsdóttur.
Sjá nánar á www.njalurefill.is eða kíktu á Njálurefilinn á Facebook