250 ÁR FRÁ FÆÐINGU JANE AUSTEN

Þann 16. desember verða liðin 250 ár frá fæðingu enska rithöfundarins Jane Austen en hún fæddist þann dag árið 1775 í Steventon, Hampshire, á suðaustur-hluta Englands.
Varla þarf að fjölyrða um hversu stórkostlegur höfundur Jane Austen er, bækur hennar eru sívinsælar og kvikmyndir og sjónvarpsþáttaraðir hafa verið gerðar eftir mörgum þeirra. Þá hafa síðari tíma rithöfundar gert sér mat úr verkum hennar, spunnið við skáldsögurnar og skrifað nútímaútgáfur af þeim.
Alda Björk Valdimarsdóttir, prófessor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands skrifaði doktorsritgerð um verk Jane Austen og eftirlíf þeirra og árið 2018 kom út bók hennar, Jane Austen og ferð lesandans.
Vert er til að minna á að nokkrar bóka Jane Austen hafa komið út í íslenskum þýðingum og ástæða til að rifja upp kynni við bækurnar á þessum tímamótum. Eftirfarandi skáldsögur hafa komið út á íslensku.
Hroki og hleypidómar, í þýðingu Silju Aðalsteinsdóttur

Í kynningu útgefanda segir:
Þegar ungur, vel stæður karlmaður flytur í héraðið fara sveitungarnir undir eins að orða hann við fallegustu heimasætuna í grenndinni. Sú saga hefði fljótlega endað vel ef vinur hans, auðugur piparsveinn úr öðru héraði, hefði ekki farið að skipta sér af þessum ráðagerðum. Í hroka sínum þykir honum stúlkan ekki af nógu góðum ættum og vekur með því heiftarlega hleypidóma systur hennar.
Hroki og hleypidómar kom út í fyrsta skipti árið 1813 og er einhver frægasta ástarsaga heimsbókmenntanna. Fjörug, ögrandi og fyndin leiðir Jane Austen persónur sínar út á dansgólf sögunnar þar sem þær stíga sín þokkafullu spor, hring eftir hring, sem smám saman þrengist utan um söguhetjurnar.
Emma, í þýðingu Sölku Guðmundsdóttur
Í kynningu útgefanda segir:
Emma Woodhouse er falleg, vel gefin, orðheppin og auðug. Hún sýnir vonbiðlum sínum engan áhuga en hefur af því bestu skemmtun að ráðstafa öllum í kringum sig í hjónaband.
Þegar hún tekur unga ættlausa stúlku, Harriet Smith, undir sinn verndarvæng fer hún undireins að leita að hæfilegu mannsefni handa henni þó að vinur hennar, herra Knightley, vari hana eindregið við því. Það er ekki fyrr en Harriet velur sér sjálf mann sem Emma áttar sig á hvað leynist í hennar eigin hjarta.
Emma er, ásamt Hroka og hleypidómum, vinsælasta verk bresku skáldkonunnar Jane Austen, dillandi fjörug og skemmtileg saga af ástamálum ungs fólks sem reynast vera söm við sig þótt aldir líði.
Aðgát og örlyndi, í þýðingu Silju Aðalsteinsdóttur

Í kynningu útgefanda segir:
Þó að Marianne Dashwood sé ekki orðin sautján ára er hún strax orðin dauðhrædd um að hún hitti aldrei karlmann sem uppfyllir allar kröfur hennar um háttvísi, þekkingu og glæsileika. En þegar hún hittir hinn riddaralega John Willoughby er hann eins og svar við öllum hennar draumum og hún verður heiftarlega ástfangin. Því verða vonbrigðin sár þegar hann reynist ekki ástar hennar verður. Hún reiðir sig á systurina Elinor í sorg sinni og örvæntingu og veit ekki að hún glímir líka við vonbrigði í ástamálum sem hún getur ekki trúað neinum fyrir.
Aðgát og örlyndi – sem á frummálinu heitir Sense and Sensibility – er ein alvinsælasta skáldsaga Jane Austen og hefur verið löguð að sjónvarpi og kvikmyndum ótal sinnum á undanförnum áratugum. Allt frá árinu 1811 hafa konur um víða veröld notið þess að lesa um systurnar Elinor og Marianne og mátað líf sitt og hugsanir við þær.
