SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir31. ágúst 2019

KEYRÐI BÓKABÍLINN MILLI HVERFA

Vert er að vekja athygli á Ingibjörgu Hjartardóttur (f. 1952) sem hefur líklega samið flest leikrit allra íslenskra skáldkvenna. Hún hefur samið bæði sviðsverk og útvarpsleikrit, auk ljóða og smásagna. Ferill hennar hófst 1985 og seinni árin hefur hún skrifað skáldsögur. Forðum keyrði hún bókabíl milli hverfa og lauk námi sem bókasafnsfræðingur 1980.

Ingibjörg er mikill frumkvöðull. Hún er ein af stofnendum Hugleiks, Höfundasmiðjunnar og Ljóðasmiðjunnar. Þegar Ingibjörg flutti norður í Svarfaðardal árið 2001 stofnaði hún ljóðasmiðjuna Hulduhópinn. Hún átti hugmyndina að Fjöruverðlaununum, bókmenntaverðlaunum kvenna og er ein af upphafskonum og stofnendum þeirra og heiðursfélagi. Ingibjörg stofnaði ritbúðir í Svarfaðardal fyrir vinnandi rithöfunda og var fyrsta vinnuvikan í mars 2018. Þar dvöldu sex skáldkonur og skrifuðu og verður gaman að sjá hvað kemur út úr því.

Ingibjörg er í hópnum Kvæðakonan góða, sem kveður rímur og flytur stemmur á góðum stundum. Hópurinn kom fram á Kjarvalsstöðum og í Listasafni Reykjavíkur á menningarnótt 2019 við góðar undirtektir.

Tengt efni