Jóna Guðbjörg Torfadóttir∙18. mars 2020
Í heimahöfn eftir Draumeyju Aradóttur
Ljóð dagsins er Í heimahöfn eftir Draumeyju Aradóttur en ljóðið hlaut viðurkenningu í ljóðasamkeppni Jóns úr Vör á árinu.
Í heimahöfn
Haustkvöldið breiðir voldugt
vænghaf yfir ólgandi höfnina
Fáklædd telpa í alltof stórum kuldaskóm
fetar sig hikandi út eftir hálli bryggjunni
Utar í firðinum veður óvæginn
öldukambur á land
tvístígur kvalráð milli hægri og vinstri
rýkur upp þegar minnst varir og
hellir sér af heift yfir völur og drang
milli ísbeittra orða og sefandi faðms
óvægnastur því sem
næst honum stendur
augun spurul - en móskan dylur margt
og eyrun hafa þegar heyrt of mikið.
Hagvanur flökkufugl sveimar hugsi
yfir fjörð, tún og hraun;
sundurtætt tjöld í barnaleikriti
(bönnuðu innan átján)
sem þrátt fyrir brotsjó
endar vel.