SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Draumey Aradóttir

Draumey Aradóttir er kennari, skáld og rithöfundur, fædd í Hafnarfirði 21. mars 1960.

Hún ólst þar upp en bjó í Reykjavík frá tvítugsaldri fram til ársins 1998 þegar hún flutti til Lundar í Svíþjóð. Þar nam hún og starfaði um 17 ára skeið en kom til baka til Íslands 2015 og er nú komin aftur á bernskuslóðir - í Hafnarfjörð.

Draumey lauk B.Ed.-prófi frá Kennaraháskóla Íslands árið 1995, nam heimspeki um eins árs skeið við Háskóla Íslands og hagnýta heimspeki og sænska tungu og bókmenntir við Háskólann í Lundi. Hún hefur starfað sem kennari og sérkennari við íslenska grunnskóla og var um tíma verkefnastjóri stoðþjónustu. Þá sinnti hún jafnframt kennslustörfum við grunn- og framhaldsskóla í Lundi og Staffanstorp í Svíþjóð.

Fyrir Draumey er ritun leið til að lifa - og lifa af. Hún hefur skrifað frá því henni var fyrst rétt blað og blýantur í hönd. Þar má nefna sögur og ljóð, sendibréf og ferðapistla auk þeirra barna- og unglingabóka sem taldar eru upp í ritaskrá. Ljóð hennar hafa birst víða, m.a. í Lesbók Morgunblaðsins, Tímariti Máls og menningar og í íslenskum og sænskum safnbókum ásamt fleiri skáldum og rithöfundum.

Sér til yndis syngur Draumey og dansar, gengur um skóga og yfir hraun, horfir á hafið og lætur sig dreyma. Lífsspeki hennar er enda að draumar eru til alls fyrstir og að við veljum viðhorf okkar, viðbrögð og tilfinningalega líðan með því hvernig við hugsum um þá atburði og aðstæður sem við mætum á lífsför okkar.

Draumey er mikill dýra- og náttúruvinur og býr með faxhundinum Álfi, sem er af sænsku bergi brotinn. Hún er móðir tveggja barna, Sunnu Dísar Másdóttur og Mána Steins Mássonar, og amma tveggja ömmudrengja.


Ritaskrá

 • 2022  Varurð
 • 2009  Draumlygnir dagar
 • 2004  Birta draugaSaga
 • 2003  Fem stenrösen på kärlekens stig
 • 2003  Fimm vörður á vegi ástarinnar
 • 2001  Bláa handklæðið (safnbók sex skálda)
 • 2001  Þjófur og ekki þjófur

 

Verðlaun og viðurkenningar

 • 2023  1. verðlaun fyrir ljóð á Júlíönu, hátíð sögu og bóka
 • 2022  Viðurkenning fyrir tvö ljóð á Júlíönu, hátíð sögu og bóka
 • 2021  Viðurkenning í ljóðasamkeppni Jóns úr Vör
 • 2020  Viðurkenning í ljóðasamkeppni Jóns úr Vör
 • 2006  2. verðlaun í ljóðasamkeppni Jóns úr Vör

 

Þýðingar

 • 2013  Þerraðu aldrei tár án hanska - 2. Sjúkdómurinn (eftir Jonas Gardell)
 • 2013  Þerraðu aldrei tár án hanska - 1. Ástin (eftir Jonas Gardell)
 • 2001  Að velja gleði (eftir Kay Pollak)

 

Tengt efni