SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn31. mars 2020

TENGDADÓTTIRIN SNÝR AFTUR - Guðrún frá Lundi

Í dag endurútgefur Mál og menning Tengdadótturina eftir Guðrúnu frá Lundi, sem kom fyrst út 1952-1954 í þremur bindum og átti miklum vinsældum að fagna. Tengdadóttirin segir frá ástum og örlögum jafnt sem daglegu lífi til sveita í byrjun 20. aldar.

Þorgeir Þorgeirsson, ungur sjómaður að sunnan, ræður sig sem vinnumann á prestssetur í blómlegri norðlenskri sveit. Hann hrífst af fallegustu vinnukonunni á bænum en hikar við að bindast henni af því að hann hræðist líf í fátækt. Á heimleið um haustið leysir hann af slasaðan vinnumann á stórbýlinu Hraunhömrum. Bóndinn þar á tvær dætur og sú eldri, Ástríður, er harðákveðin í að sleppa Þorgeiri ekki aftur suður. Þótt Ástríður sé röggsöm og forkur til vinnu er hún ekki heillandi kona – en auður föður hennar freistar.

Guðrún frá Lundi hefur einstakt lag á að gæða persónur sínar lífi svo að lesandinn hverfur um hundrað ár aftur í tímann. Efni bóka sinna sótti Guðrún í sveitalífið og nær allar gerast þær í sveit, flestar í kringum aldamótin 1900. Þetta eru sögur um ástir og örlög, með áhugaverðum persónum, skemmtilegum samtölum og fjörlegum frásagnarhætti. Bækurnar skrifaði Guðrún sjálfri sér og öðrum til ánægju og lesendur tóku þeim líka fagnandi og biðu hverrar nýrrar bókar með óþreyju.

 

Sigríður Albertsdóttir

 

Tengt efni