
Guðrún frá Lundi
Guðrún Baldvina Árnadóttir fæddist 3. júní 1887 á Lundi í Stíflu í Fljótum í Skagafirði og kenndi sig við þann bæ og öðlaðist frægð undir höfundarnafninu Guðrún frá Lundi. Foreldrar Guðrúnar voru Árni Magnússon (1854-1924) og Baldvina Ásgrímsdóttir (1858-1941).
Guðrún var af fátæku bændafólki komin, hún var fjórða í röð níu systkina sem upp komust og átti ekki kost á menntun þegar hún var barn og unglingur að undanskilinni farkennslu sem hún naut í samtals níu vikur á þremur árum.
Þótt Guðrún þyrfti að vinna sveitastörf frá blautu barnsbeini notaði hún frístundir til skrifta og skrifaði mikið sem barn og unglingur. Eftir að hún giftist tuttugu og þriggja ára gömul lét hún þessa iðju sitja á hakanum enda nóg að gera í sveitastörfum og uppeldi þriggja barna sinna. Eiginmaður Guðrúnar, Jón Þorfinnsson, var smiður og var oft að vinna fjarri heimilinu. Guðrún var húsmóðir í sveit, í samtals þrjátíu og sjö ár, en fluttist eftir það á Sauðakrók þar sem hún bjó til æviloka.
Eftir að Guðrún var laus undan sveitastörfum tók hún til við að skrifa á ný og kom fyrsta bók hennar út árið 1946 – þegar hún var 59 ára. Það var fyrsta bindi Dalalífs, fimm binda skáldsögu sem átti eftir að verða hennar þekktasta verk. Eftir það sendi hún frá sér eina bók á ári allt til ársins 1973, nema árið 1969. Hún skrifaði því alls 26 bækur á ritferli sínum en sögurnar eru færri því sumar komu út í nokkrum bindum.
Guðrún sótti efnivið sinn í íslenskt sveitalíf og allar bækur hennar utan einnar gerast í sveit, flestar um eða upp úr aldamótum 1900. Bækur Guðrúnar nutu framan af lítils álits meðal bókmenntafræðinga og gagnrýnenda en þær hafa lifað og ætíð átt sér dygga aðdáaendur.
Á Vísindavef Háskóla Íslands er að finna fróðlega grein um Guðrúnu frá Lundi eftir Dagnýju Kristjánsdóttur. Þar skrifar Dagný meðal annars um verk Guðrúnar:
Borgarmyndunin var hröð á eftirstríðsárunum og fólk flutti í stríðum straumum úr sveitunum til þorpa og bæja. Guðrún frá Lundi skrifaði hins vegar sveitasögur. Þær gerast í gamla bændasamfélaginu, sem hún ólst upp í, en var nú að hverfa hratt. Allar sögurnar eru átthagasögur og gerast í Skagafirði sem er sagnaheimur Guðrúnar. Stóru skáldsögurnar hennar í mörgum bindum eru ættarsögur, þar er fjallað um ástir unga fólksins en samt eru þær ekki ástarsögur í rómantískum og tilfinningasömum skilningi því að Guðrún er fylgjandi skynsemi og gagnkvæmri virðingu milli kynjanna. Villtar ástríður eða óhóf leiða bara til upplausnar og óhamingju og þannig sambönd endast illa í bókum hennar. Hóf er best í öllu. Sögur Guðrúnar eru grípandi lesning, sterkir persónuleikar takast á og margar frásagnir fléttaðar saman af list.
Hver einasta bók Guðrúnar frá Lundi var rifin út, menn vildu eiga þær og á listum yfir útlán bókasafnanna var hún líka langefst á blaði á hverju ári. Vinsældir Guðrúnar frá Lundi hvíldu án efa á því að hinir nýju bæjarbúar eftirstríðsáranna, sem flestir ólust upp í bændasamfélaginu, höfðu þörf fyrir að heyra þessar sögur aftur og aftur eins og syrgjendur sem eru að venja sig við og sættast á missi þess sem horfinn, eða horfið, er.
Dagný bendir einnig á tengsl frásagnaraðferðar Guðrúnar við aðferð frægustu kvenrithöfunda Norðurlanda á þeim tíma sem hún var að skrifa, Selmu Lagerlöf og Karen Blixen til að mynda.
Ævisaga Guðrúnar frá Lundi er í undirbúningi verður fagnaðarefni þegar hún kemur út.
Guðrún frá Lundi lést 86 ára gömul árið 1975.
Ritaskrá
- 1970–1973 Utan frá sjó (4 bindi)
- 1968 Gulnuð blöð
- 1967 Náttmálaskin
- 1966 Dregur ský fyrir sól
- 1965 Sólmánaðardagar í Sellandi
- 1964 Hvikul er konuást
- 1961–1963 Stýfðar fjaðrir (3 bindi)
- 1960 Í heimahögum
- 1959 Á ókunnum slóðum
- 1958 Svíður sárt brenndum
- 1957 Ölduföll
- 1956 Römm er sú taug
- 1955 Þar sem brimaldan brotnar
- 1952–1954 Tengdadóttirin (1: Á krossgötum, 2: Hrundar vörður, 3: Sæla sveitarinnar)
- 1950 Afdalabarn
- 1946–1951 Dalalíf (1: Æskuleikir og ástir, 2: Alvara og sorgir, 3: Tæpar leiðir, 4: Laun syndarinnar, 5: Logn að kvöldi)