NAUÐGUN? Um Sjálfstýringu
Hvenær verður kona fyrir ofbeldi og hvenær verður kona ekki fyrir ofbeldi? Sjálfstýring er samtímasaga sem spyr þessarar spurningar. Höfundurinn er Guðrún Brjánsdóttir en sagan sigraði í samkeppni Forlagsins um Nýjar raddir.
Söguhetjan verður fyrir kynlífsreynslu í partýi sem fyrir henni er þokukennd en „hljómar dálítið nauðgunarlega“ eins og vinkona hennar bendir á. Viðbrögð hennar við ofbeldinu eru dæmigerð, fyrst afneitun og síðan að kenna sjálfri sér um. Í sögunni er því lýst hvernig atburðurinn sogar úr henni alla orku og lífsgleði og líf hennar fer á sjálfstýringu. Fjallað er um mörk og hversu erfitt er að setja þau þegar sjálfsmyndin er ekki beysin. Sagan lýsir sárri reynslu og er augljóslega rituð undir miklum áhrifum af metoo-byltingunni.
„Þetta var svo ómerkilegt. Það voru hundrað tilviljanir sem urðu til þess að þetta gerðist. Sumar þeirra voru samt ekki beinar tilviljanir, meira svona ákvarðanir sem ég tók, eins og til dæmis að fara niður í bæ og að halda áfram að drekka þegar ég hefði getað sleppt því. Á undanförnum árum hef ég breyst og er sannarlega orðin kærulausari, passa ekki lengur jafn vel upp á sjálfa mig, hegðun mína og orðspor mitt, drekk úr mér rænuna hverja helgi. Kannski ekki furða að hann hafi látið til skarar skríða“ (34).
Sjálfstýring er fyrsta skáldsaga Guðrúnar Brjánsdóttur. Hún hefur áður sent frá sér ljóðabók og þýðingu á Litla drengnum og beinagrindinni, eftir færeyska rithöfundinn Beini Bergsson.