SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir12. mars 2019

INNBLÁSTUR SKÓGARGUÐSINS - Hallfríður J. Ragnheiðardóttir

vakinn af „Úranusi“ í tónverki Gustavs Holst, Pláneturnar

Hrifin inn í dimman skóg

þýtur í laufi

þungstígt skekur bjarndýr grund

fetar fimlega úlfur

berskjaldað ólmast hjarta

í konubrjósti

rásar um æðar

eldforn ótti

þrymur í eyrum

ósköp

vekja af svefni

djarfhuga dís

bendi ýviðarbogann

legg þrá mína á streng

skýst sem örskotsleiftur

upp gegnum glundroðans dyn

silfurskært tónstef

málar mynd:

Fikrar sig mót ljóssytri um laufþak

varfærnislega, veikburða

vekur djúpar kenndir

smáblóm rautt

sem blóð við rætur hins sígræna trés.

(2014)

Tengt efni