Hallfríður Jakobs Ragnheiðardóttir
Hallfríður Jakobs Ragnheiðardóttir fæddist 18. október 1942. Hún lauk BA prófi í frönsku og íslensku frá Háskóla Íslands 1985, MA í íslenskum bókmenntum 1995 og kennslufræðum til kennsluréttinda 2002.
Árið 2012 hlaut hún Ljóðstaf Jóns úr Vör fyrir ljóð sitt Triptych. Síðan hafa birtst eftir hana ljóð og smásagan Skírnarherbergið í Stínu.
Árið 1986 kom út þýðing Hallfríðar á Elskhuganum eftir Marguerite Duras. Um líkt leyti birti hún þýðingar á tveimur smásögum eftir Marguerite Yourcenar, Síðasta ást Genghis prins (TMM, 1985) og Maríukirkja svalanna (Teningur, 1986), og litlu síðar Þrjár sögur eftir Yasunari Kawabata (TMM, 1989) og smásöguna Hvunndagshamingja eftir Mori Yoko (Lesbók Morgunblaðsins, 18. mars 1989).
Í MA-ritgerð sinni rýndi Hallfríður í goðsögur og þjóðsögur í ljósi sálarfræði C. G. Jung. Úr þeim jarðvegi er sprottin bók hennar Quest for the Mead of Poetry sem kom út í Bandaríkjunum 2016 og fjallar um táknmál tíða í íslenskum þjóðsögum og ævintýrum.
Árið 2007 hóf hún nám í draumaþerapíu hjá Institute for Dream Studies í Charleston í Suður-Karolínu og útskrifaðist þaðan tveimur árum síðar. Þá hefur hún að baki áralangt nám í tarot-fræðum hjá þeim sem hæst ber á þeim vettvangi vestan hafs.
Af greinum eftir Hallfríði má nefna „Gröndal og gróteskan: tilraun til túlkunar á Gandreið Benedikts Sveinbjarnarsonar Gröndals“ (TMM, 1994), „Helgar tíðir“ (Lesbók Morgunblaðsins 3. apr. 2004), „Menstruation“ (í The Book of Symbols), „En er hún fer...“ (TMM, 2018). Frekari upplýsingar er að finna á www.dreamsandtarot.is.
Hér má hlusta á viðtal við Hallfríði á Rúv um Rauðu bók Jungs.
Ritaskrá
2019 Úr minnisbókum Steinunnar Lilju Sturludóttur
2016 Quest for the mead of poetry
Verðlaun og viðurkenningar
Árið 2012 hlaut Hallfríður Ljóðstaf Jóns úr Vör fyrir ljóð sitt Triptych
Þýðingar
1989 Þrjár sögur. Yasunari Kawabata
1989 Hvunndagshamingja. Mori Yoko
1986 Elskhuginn. Marguerite Duras
1986 Maríukirkja svalanna. Marguerite Yourcenar
1985 Síðasta ást Ghengis prins. Marguerite Yourcenar