SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir23. mars 2022

Guðrún Helgadóttir látin

Mynd: Mbl.
 

Guðrún Helgadóttir lést aðfararnótt 23. mars. Hún var þjóðþekkt og vinsæl skáldkona, fyrrverandi alþingismaður og fyrst kvenna til að gegna embætti forseta Alþingis.

Hún gaf út sína fyrstu bók, Jón Odd og Jón Bjarna, árið 1974 tæplega fertug að aldri og var upp frá því einn vinsælasti og virtasti barnabókahöfundur Íslands. Eftir hana liggja skáldverk og sögupersónur sem þjóðin hefur lært að elska í gegnum árin eins og Páll Vilhjálmsson, Heiða í Sitji guðs englar, Gunnhildur og Glói og margar fleiri. Með skrifum sínum í gegnum árin hefur Guðrún öðlast sess sem einn ástsælasti og vinsælasti rithöfundur landsins. Skáldverk hennar telja á þriðja tug og hafa bækur hennar verið gefnar út á fjölmörgum tungumálum. Auk þess hefur hún samið nokkur leikrit. Verk hennar hafa hlotið góða dóma hér heima og erlendis.

Guðrún Helgadóttir hlaut á langri ævi ýmiss konar verðlaun og viðurkenningar fyrir störf sín, s.s. Norrænu barnabókaverðlaunin, Barnabókaverðlaun skólamálaráðs Reykjavíkur og Bókaverðlaun barnanna. Árið 2005 hlaut hún Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar fyrir framlag sitt til íslenskrar tungu og árið 2012 Sögusteininn, heiðursverðlaun IBBY á Íslandi, fyrir höfundarverk sitt. Þá var hún heiðruð og þakkað sérstaklega fyrir ritverkin og framlag hennar til íslenskrar menningar í tengslum við Bóka- og bíóhátíð barnanna sem haldin var í Hafnarfirð 2018.

Skáld.is þakkar Guðrúnu fyrir bækurnar góðu og fyrir að hafa sett mark sitt á þjóðarsálina á djúpan og fallegan hátt.

Skáld.is þakkar fyrir hlýjuna og húmorinn, stílinn og orðaforðann, beinskeytta samfélagsrýnina og fyrir að tala alltaf við börn eins og vitsmunaverur.
 

Sitji englar saman í hring yfir sænginni hennar.

 

 

 

Tengt efni