SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir23. ágúst 2022

LJÓÐFÖR UM VARURÐ

 

Draumey Aradóttir, f. 1960, hefur sent frá sér bókina Varurð en síðast kom bók frá henni árið 2009. Árið 2020 fékk hún viðurkenning í ljóðasamkeppni Jóns úr Vör fyrir nokkur ljóðanna í bókinni en árið 2006 hlaut hún þá viðurkenningu fyrst. Nafnorðið varurð merkir skynjun (Íslensk orðabók).

 
 

Í Varurð býðst lesendum að reima á sig skó og leggja upp í ljóðför „um oddhvassar lendur óttans; allt frá upptökum hans að óumflýjanlegum átökunum við hann. Nestuð áræði, einlægni og varurð er áfangastaðurinn lang­þráð frelsið, friðurinn og fögnuðurinn sem bíður þeirra sem fletta af sér öllu því sem þeir töldu sig vera og kasta sér kviknaktir út í ógn­vekjandi eldskírnina...“

Um fyrstu bók Draumeyjar fjallaði Hrund Ólafsdóttir í Morgunblaðinu, 19. desember 2001:

„Draumey Aradóttir skrifar fyrstu bók sína í minningu ömmu sinnar. Það er vel þar sem skáldsaga hennar er ekki síður um gamalt fólk en börn þó að þau séu í aðalhlutverkum. Það er einmitt samband unga og gamla fólksins sem dýpkar söguna og færir hana í vítt samhengi mannlegra samskipta. Í hressilegum átökum þar sem lífsgleðin ríkir hverfur kynslóðabilið á eðlilegan hátt í þessari bók um vináttu, samúð og hreinskilni... Það er skýr boðskapur í þessari raunsæju, látlausu bók: Við eigum að láta okkur aðra varða, virða annað fólk og njóta skemmtilegra augnablika. Það er í sögunni ákveðin rómantísk lífssýn sem segir að sveitin og fámennið ali af sér gott og skemmtilegt fólk en okkur er líka sagt að allt þetta sé að finna í Reykjavík. Bygging sögunnar er skýr og framvinda atburðanna eðlileg og spennandi. Teikningar og kápa Helga Sigurðssonar eru skemmtilegar og í samræmi við raunsæi og einfaldleika bókarinnar. Það vantar alltaf sögur um venjulega krakka svo að vonandi heldur Draumey Aradóttir áfram að sýna okkur hæfileika sína sem rithöfundur.“

„Fyrir Draumey er ritun leið til að lifa - og lifa af. Hún hefur skrifað frá því henni var fyrst rétt blað og blýantur í hönd. Þar má nefna sögur og ljóð, sendibréf og ferðapistla auk þeirra barna- og ugnglingabóka sem taldar eru upp í ritaskrá. Ljóð hennar hafa birst víða, m.a. í Lesbók Morgunblaðsins, Tímariti Máls og menningar og í íslenskum og sænskum safnbókum ásamt fleiri skáldum og rithöfundum. Sér til yndis syngur Draumey og dansar, gengur um skóga og yfir hraun, horfir á hafið og lætur sig dreyma. Lífsspeki hennar er enda að draumar eru til alls fyrstir og að við veljum viðhorf okkar, viðbrögð og tilfinningalega líðan með því hvernig við hugsum um þá atburði og aðstæður sem við mætum á lífsför okkar“ segir m.a. um Draumeyju á skáld.is.

 

Tengt efni