SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir28. maí 2019

SJÁ BETUR AUGU EN AUGA? - eftir Ólínu Þorvarðardóttur

 

Nokkur orð um vísur Vatnsenda–Rósu

 

Augað mitt og augað þitt,
og þá fögru steina,
mitt er þitt og þitt er mitt
þú veist hvað ég meina.

 

 

Það er ævinlega ánægjuefni þegar ungir listamenn blása rykið af gömlum þjóðlegum fræðum og gæða þau nýju lífi, líkt og gerst hefur á undanförnum misserum hjá hljómsveitinni Sigurrós sem með nýju ívafi hefur endurlífgað gömul kvæðastef sem voru við það að gleymast. Sömuleiðis hafa ungar söngkonur margar hverjar sótt í þjóðvísnahefðina perlur úr ljóðageymdinni, gersemar á borð við ástarvísur Rósu Guðmundsdóttur sem flestir þekkja sem Vatnsenda-Rósu eða Skáld-Rósu.

Á mælikvarða 19. aldarinnar átti Rósa óvenjulegan lífsferil, ekki síst í ástamálum. Hún varð ástfangin af Páli Melsted, skrifara amtmannsins á Möðruvöllum og síðar sýslumanni í Suður-Múlasýslu, en hann yfirgaf hana fyrir ættstærra kvonfang. Þá var og eftirminnilegt samband hennar og Natans Ketilssonar, sjálfmenntaðs læknis sem síðar var myrtur af annarri ástkonu sinni, Agnesi, og lagsmanni hennar Friðriki, sem frægt er orðið. Þessir tveir menn, Páll og Natan, urðu uppspretta margra fegurstu ástarvísna Rósu, til dæmis "Trega eg þig manna mest" og "Langt er síðan sá eg hann". Þótt ekki sé mikið varðveitt af ljóðmælum Rósu hafa kynslóðirnar alið á vörum nokkrar fallegar vísur eftir þessa skáldmæltu, tilfinningaheitu og fögru konu. Ein þeirra — sú sem hvað oftast er sungin — er vísan um "þá fögru steina" augun sem segja allt sem segja þarf, því "þú veist hvað ég meina".

Söngvenjan

Vísan hefur oft verið sungin í ýmsum raddsetningum og stílbrigðum. Eitt er þó sameiginlegt með hinum annars misleita flutningi á ástarjátningu Rósu, og það er, að undantekningalítið er farið rangt með hana: "Augun mín og augun þín" syngja bjartar kvenraddir af innlifun — síðan "ó, þá fögru steina" eða "ó, þeir fögru steinar" eða "og þá fögru steina" eða "og þeir fögru steinar". Þá er klykkt út með "mitt er þitt og þitt er mitt" eða "mitt var þitt og þitt var mitt" og loks "þú veist hvað ég meina" — en það er eina ljóðlínan sem allir virðast sammála um hvernig með skuli farið.

Upptök skekkjunnar má trúlega rekja aftur til ársins 1949 þegar Snorri Hjartarson tók saman Íslenzk ástarljóð og birti vísuna þar með upphafinu: "Augun mín og augun þín / ó, þá fögru steina".1

Þannig orðuð virðist vísan svo hafa ratað á nótnablöð, inn í sönghefti, á hljómplötur, diska og hljóðbönd með þeim afleiðingum að á síðustu árum ómar hún hvarvetna í þessari gerð.

Svo allir njóti nú sannmælis er rétt að taka fram að vísan er til í mismunandi gerðum. Einkum er misjafnt hvernig farið er með 2. og 3. línu og því skiljanlegt að þær séu sungnar á ýmsa vegu. Erfiðara er að sætta sig við þann umsnúning að setja fyrstu ljóðlínuna í fleirtölu og eyðileggja þar með rímfestu vísunnar. Þegar ég á dögunum rökræddi þetta við kunningjakonu mína sagði hún nokkuð sem trúlega varpar ljósi á það hvers vegna þessi tilhneiging er svo rík sem raun ber vitni: "Maður segir nefnilega ekki auga þegar maður meinar augu." Hún var sigri hrósandi þegar hún bætti við: "Það hljóta meira að segja skáldin að skilja." Séu þessi ummæli til marks um það sem gerst hefur í meðförum vísunnar hefur merkingafræðin riðið bragfræðinni á slig.

Bragfræðin

Auðséð er að þeir eru æði margir — undarlega margir — sem láta sig litlu skipta að orðið "þín" skuli eiga að heita rímorð á móti "mitt" í ferskeyttri vísu. Litlu skiptir hversu ómþýður raddblærinn er sem berst úr ungmeyjarbarkanum — jafnvel fegursti söngur getur ekki mildað hið skerandi ósamræmi vísuorðanna í sæmilega heilbrigðu brageyra. Eins og allir bragglöggir menn sjá og heyra þá hefur þessi vísa Vatnsenda–Rósu verið samin í dæmigerðum ferskeyttum hætti með víxlrími þar sem saman eiga að ríma síðustu orð 1. og 3. línu annars vegar (mitt/þitt) og 2. og 4. línu hins vegar (steina/meina). Sveinbjörn heitinn Beinteinsson, einn fremsti hagyrðingur landsins, sem fáir hafa staðist snúning í bragfimi, birtir vísuna í Lausavísnasafni sem hann tók saman fyrir Hörpuútgáfuna 1976. Þar er hún þannig:

 

Augað mitt og augað þitt,
ó, þá fögru steina,
mitt er þitt og þitt er mitt
— þú veist hvað ég meina 2

 

Sveinbjörn lætur þess ekki getið hvaðan hann hefur þessa gerð vísunnar, enda ekki við því að búast í knöppu lausavísnasafni. Það gerir hins vegar Guðrún P. Helgadóttir í sínu merka riti Skáldkonur fyrri alda þar sem hún fjallar ítarlega um ævi og skáldverk Rósu Guðmundsdóttur. Líkt og hjá Sveinbirni er upphaf vísunnar í riti Guðrúnar "augað mitt og augað þitt" en önnur ljóðlína er "og þá fögru steina".3 Af umfjöllun Guðrúnar má ráða að vísuna sé að finna í fjórum af þeim sjö handritum sem lögð eru til grundvallar kaflanum um Vatnsenda–Rósu.4

 

Samtímaheimildir

Af þeim handritum vísunnar sem Guðrún tilgreinir eru þrjú frá því um og eftir miðbik nítjándu aldar. Þau eru:

 

  • Natans saga Gísla Konráðssonar sem dr. Jón Þorkelsson afritaði 18845 og studdist þá við bæði yngri og eldri gerð Natans sögu Gísla frá 1860–1865.6 Í uppskrift Jóns er upphaf vísunnar "Augað mitt og augað þitt" en þriðja línan er "mitt er þitt og þú er mitt".

  • Ljóðmæli eftir ýmsa tilgreinda höfunda, skráð með hendi Páls stúdents Pálssonar og varðveitt í Landsbókasafni.7 Hér er upphaf vísunnar "Augað mitt og augað þitt / og þeir litlu steinar".

  • Kvæðasafn ýmissa höfunda skrifað upp af nokkrum skrásetjurum á fyrri hluta 19. aldar. Í þessari heimild, líkt og í uppskrift Páls stúdents, er upphaf vísunnar einnig "Augað mitt og augað þitt / og þeir litlu steinar".8

Þær heimildir sem nú eru nefndar eru allt 19. aldar uppskriftir á ljóðmælum, það er að segja úr samtíma skáldkonunnar. Svolítill blæbrigðamunur er á vísunni í handritunum en allar eru þær samhljóða um upphaf hennar: "Augað mitt og augað þitt".

Enginn sem lesið hefur ljóðin hennar Skáld–Rósu þarf að velkjast í vafa um hvort jafn hagmælt og listhneigð kona hefði látið frá sér fara vísu sem ekki laut rímkröfum. Þá, eins og nú, var algengt að menn hnikuðu til orðaröð og settu fleirtöluorð í eintölumynd til þess að þjóna hrynjandi og formgerð ljóðmálsins. Skáld getur því hæglega komið merkingu ljóðmálsins til skila þótt það fylgi ekki ströngustu málfræðireglum. Það nefnist skáldaleyfi og er vel þekkt. Um það vitna mýmörg dæmi frá ýmsum tímum — ekki síst önnur vísa eftir Skáld‒Rósu sem Sveinbjörn Beinteinsson birti í fyrrnefndu lausavísnasafni. Má þar glöggt sjá að skáldkonunni var vel tamt að nota eintölumyndina "auga" þegar hún hugsaði um "augu" — og gerði það óhikað ef formið krafðist þess:

 

Augað snart er tárum tært,
tryggð í partast mola,
mitt er hjartað sárum sært,
svik er hart að þola.

 

Eftirmálsgreinar

1 Íslenzk ástarljóð. Snorri Hjartarson valdi ljóðin. Hörpuútgáfan. Reykjavík 1949, s. 83.

2 Lausavísur frá 1400 til 1900. Safnað hefur Sveinbjörn Beinteinsson. Hörpuútgáfan. Reykjavíl 1993 (1.útg. 1976), s. 12.

3 Guðrún P. Helgadóttir 1963: Skáldkonur fyrri alda II. Köldvökuútgáfan á Akureyri, s. 155. Bókin var síðar endurútgefin af Hörpuútgáfunni 1993.

4 Auk handritanna styðst Guðrún við útgáfu Brynjólfs Jónssonar á Minna‒Núpi á Natans sögu Ketilssonar og Skáld–Rósu frá 1912 en þar er vísan sögð öðruvísi. Brynjólfur byggir á Natans sögu Gísla Konráðssonar sem neðar er getið og Natans sögu Tómasar Guðmundssonar á Þverá sem skráð var um miðbik 19. aldar og er varðveitt í Lbs 1933 8vo.

5 Lbs 1320 4to.

6 JS 123 8vo og Lbs 1291 4to.

7 Lbs 162 8vo.

8 JS 83 8vo; sbr Guðrún P. Helgadóttir 1963 II, nmgr. 274.

 

Greinin birtist upphaflega í ritinu Á sprekamó. Afmælisrit tileinkað Helga Hallgrímssyni náttúrufræðingi sjötugum, 11. júní 2005. Ritstjóri Sigurður Ægisson. Bókaútgáfan Hólar 2005, s. 253─256.

 

 

 

Tengt efni