SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Rósa Guðmundsdóttir (Vatnsenda-Rósa)

Rósa Guðmundsdóttir fæddist á Ásgerðarstöðum í Hörgárdal 23. desember 1795. Hún var af góðu fólki komin og átti fjögur systkini. Hvorki Rósa né systkini hennar gengu í skóla en börnin lærðu ýmislegt af bókakosti heimilisins. Af fjölda bóka sem skráðar voru í eigu fjölskyldunnar og nánu sambandi hennar við föður sinn má ætla að Rósa hafi alist upp á menningarheimili og fengið gott atlæti.

Sagnir um ástarsamband Rósu og Páls Melsteðs (1791-1861) skrifara á amtmannssetrinu á Möðruvöllum hafa verið lífseigar. Enginn veit með vissu hvort þau áttu í sambandi eða ekki en margt þykir þó benda til þess. Um þær mundir sem Páll Melsteð starfaði sem skrifari á Möðruvöllum bjó Rósa ásamt fjölskyldu sinni í Fornhaga sem var þar ekki langt frá. Hugsanlegt er að Rósa og Páll hafi hist við messu á Möðruvöllum eða við önnur tækifæri. Páll Melsteð giftist síðar dóttur amtmannsins og fluttu þau hjónin að Ketilsstöðum. Rósa réði sig síðar til starfa sem vinnukona þar og var Páll meira að segja svaramaður Rósu er hún gifti sig. Þá ber þess að geta að fyrsta barn Rósu og eiginmanns hennar hlaut nafnið Pálína. Heimildir gefa vísbendingu um að Rósa hafi óviljug gifst fyrri manni sínum, Ólafi Ásmundssyni. Ekki er vitað til þess að Rósa hafi hitt Pál Melsteð nema hugsanlega einu sinni eftir árið 1818.

Eftir eitt ár í vinnumennsku hjá Páli Melsteð flytja Rósa og Ólafur í Húnavatnssýslu árið 1818, setja saman heimili og eignast börn. Börnin urðu fimm, fjórar stúlkur, Pálína, Guðrún, Sigríður og Þóranna Rósa, og einn drengur, Rósant Berthold. Auk þess eignaðist Rósa eina stúlku sem hlaut nafnið Súsanna en hún lést aðeins fárra vikna gömul. Faðerni barnanna er eitthvað á reiki og er talið víst að Natan Ketilsson (1795-1828), vistmaður hjá þeim hjónum, hafi átt fleiri en eitt þeirra.

Rósa þótti strax á unga aldri einstaklega glæsileg í útliti og því ekki skrítið þótt menn hafi sótt til hennar. Hún þótti viðræðugóð og hnyttin í tilsvörum. Rósa var umtöluð fyrir óvenjulega hegðun; hún var ákveðin og það hefur sennilega verið hún sem réði mestu á heimilinu í Vatnsenda en ekki Ólafur bóndi hennar.

Samband Rósu og Natans hefur orðið til þess að stundum er Rósa kölluð Natans-Rósa í handritum. Natan þessi stundaði lækningar og átti víst auðvelt með að vefja fólki um fingur sér. Ber heimildum saman um að hann hafi verið klækjóttur. Rósa játaði á sig hjúskaparbrot með Natani en Ólafur fyrirgaf henni það fyrir dómi svo þau gætu haldið áfram sambúð sinni. Natan sleit síðar sambandi þeirra og sárnaði Rósu það mjög. Er varðveitt eftir hana ljóðabréf, líklega ritað árið 1826, til Natans þar sem harmur og reiði hinnar yfirgefnu ástmeyjar kemur skýrt fram:

[…]

Hvernig gaztu, er það eitt

undrun stærstu gegnandi,

sjálfur mér það sárið veitt,

sem ei græða er megnandi?

[…]

Ó, hvað sæla eg áleit mig,

enginn mun því trúandi,

þá fékk eg líða fyrir þig

forakt lýða og hinna spé.

(Skáldkonur fyrri alda, bls. 163-164.)

Agnes Magnúsdóttir og Friðrik Sigurðsson drápu Natan eins og frægt er orðið árið 1828. Þau voru síðar dæmd til dauða fyrir verknaðinn. Aftakan fór fram 12. janúar árið 1830 og var það síðasta aftakan á Íslandi.

Þau Rósa og Ólafur skildu síðar en Rósa dvaldist oft á heimilinu að Vatnsenda, líklega til þess að geta verið með börnum sínum. Er vel við hæfi að Rósa sé kennd við bæinn þótt hún hafi flutt þaðan en á Vatnsenda orti hún meðal annars bréfið til Natans og fleiri vísur. Rósa var farin að starfa sem ljósmóðir á unga aldri en þann starfa höfðu bæði móðir hennar og amma haft. Árið 1835, þegar Rósa hafði starfað sem yfirsetukona í nokkur ár, hélt hún suður til Reykjavíkur að nema ljósmóðurfræði. Ári síðar var hún orðin eiðsvarin ljósmóðir.

Seinni maður Rósu hét Gísli Gíslason og giftust þau árið 1840. Hann var tæpum tuttugu árum yngri en hún en Rósa þótti hins vegar vera bæði glaðbeitt og glæsileg eins og segir í ævikafla um Rósu í bókinni Skáldkonum fyrri alda. Bjuggu þau hjónin í Ólafsvík á Snæfellsnesi þar sem Gísli var sjómaður en Rósa ljósmóðir. Þótti hún vera afburðayfirsetukona.

Eftir nokkurra ára hjónaband tók Gísli að drekka ótæpilega. Þótti fólki hann koma illa fram við Rósu þó hún kvartaði ekki. Við tók nokkurt flakk á þeim, leiðin lá til Hafnarfjarðar og svo réðu þau sig norður í land þaðan sem Rósa sneri aldrei. Hún lést 28. september 1855 tæplega sextug að aldri og er grafin í kirkjugarðinum á Efra-Núpi í Núpsdal í Vestur-Húnavatnssýslu.

Líklega hefur Rósu ekki grunað að skáldskapur hennar ætti eftir að lifa með þjóðinni því ekki sá hún neitt eftir sig á prenti. Hún þótti vera merkiskona, “[…] sjálfri sér samkvæm í ljóðum og gerðum, kemur til dyranna eins og hún er klædd – eða fáklædd. Hispursleysið og einlægnin sitja í fyrirúmi í ljóðum hennar ásamt þeirri snilligáfu að láta aðra finna til með sér á sama hátt og hún finnur til sjálf” (Skáldkonur fyrri alda, bls. 155).

Þekktustu vísur Rósu Guðmundsdóttur ganga jafnan undir heitinu Vísur Vatnsenda-Rósu og eru þær með kunnustu ástarkvæðum íslensks skálds. Kvæðið er iðullega sungið við íslenskt þjóðlag og hefur í útsetningu Jóns Ásgeirssonar orðið eitt ástsælasta lag þjóðarinnar. Talið er að þetta kvæði hafi verið ort til Páls Melsteðs en engar staðfestar heimildir eru þó fyrir því. Í dag er kvæðið oftast sungið „Augun mín og augun þín“ en rök hafa verið færð fyrir því að textinn í kvæðinu sé hins vegar upphaflega „Augað mitt og augað þitt“. Um þetta má til dæmis lesa ágætan pistil Ólínu Þorvarðardóttir hér, þar sem færð eru rök fyrir þessu.

Vísur Vatnsenda-Rósu má í heild sinni finna hér.

Heimild:


Ritaskrá

1945 Ritsafn

1913 Nokkur smákvæði

1888 Nokkur smákvæði

Tengt efni