KERLING VILL SAMA KAUP - Kerlingarslóðir
Árið 1976 kom út fyrsta skáldsaga Líneyjar Jóhannesdóttur (1913-2002) fyrir fullorðna, sem heitir Kerlingarslóðir en þá var skáldkonan frá Laxamýri í S-Þing aðallega kunn fyrir barnabækur sínar, smásögur og leikrit. Í Kerlingarslóðum er fjallað um kjör alþýðukvenna á áttunda áratug síðustu aldar (sem fengu þá ekki sömu laun og karlar fyrir sömu störf), valkosti ungra og einstæðra mæðra og um leið er dregin upp varfærin og brotakennd mynd af sálarlífi og hlutskipti barns. Bókin fékk ágæta umfjöllun í fjölmiðlum þegar hún kom út en hefur síðan gleymst að ófyrirsynju.
Athyglisverðar skyndimyndir
„Kerlingarslóðir er þjóðfélagslegt verk sem einkum ræðir vanda kvenna í nútíma borgarsamfélagi, þótt margir þættir aðrir séu í sögunni. Umfjöllun höfundar á vanda einstæðra mæðra, tvöfaldri ábyrgð þeirra, vinnuálagi og fyrirlitningunni sem þær mæta í karlasamfélaginu, er ákaflega raunsæ. Hún eyðir hvorki tíma í útskýringar né fellir dóma, hún lýsir fólkinu sínu, konunum sínum, Stínu, Rikku, ömmu og mömmu Markúsar, gamla lífinu í kjallaranum og öllum hinum, á frábærlega lifandi hátt, bregður upp skyndimyndum úr vinnunni, strætisvagninum, götunni, sem segja meira með því að sýna en langar frásagnir...Hún er athyglisverðust þeirra bóka úr síðasta flóði sem ég hef enn lesið“ segir Silja Aðalsteinsdóttir í ritdómi í TMM 1977.
Uppreisn gegn karlveldi
Helga Kress ritaði í frægri grein í TMM 1978 um bækur og kellingabækur og segir m.a. í lokaorðum: „Eitt megineinkenni á kvennabókmenntum síðustu ára er krítísk afstaða. til bókmenntahefðarinnar og þess verðmætamats sem henni hefur fylgt. Mynstrum er snúið við og venjulegar konur eru gerðar að söguhetjum. Þegar Líney Jóhannesdóttir nefnir bók sína, sem út kom fyrir tveimur árum, Kerlingarslóðir, er hún að gera uppreisn gegn karlveldishefð bókmenntastofnunarinnar sem notar orðið „kerling" sem skammaryrði og metur daglegt líf kvenna einskis sem bókmenntaefni. Nafnið er táknrænt fyrir þann vettvang sem íslenskum kvenrithöfundum er að takast að skapa, þar sem reynsla kvenna er opinberuð og konur finna sjálfar sig og sitt líf.“
Sagan bak við söguna
Ólafur Jónsson var hrifinn af sögunni og fannst hún fá of litla athygli á bókamarkaðnum. Í ritdómi í DV 1977 taldi hann að hún væri með betri bókum það árið: „Þá má sem sé láta sér nægja hina einföldu, glaðlegu og einatt broslegu atburðarás sögunnar um kerlinguna og strákinn og kynni þeirra, hænurnar í skúrnum, hálfkarað húsið og heilsulausan karlinn og krakkana þeirra kerlingar, kunningja hennar á vinnustað og ferðir í bæinn. En ekki þarf sérlega athugulan lesanda til að sjá að miklu meira efni felst undir niðri eða á milli hinna hversdagslegu atburða og fólks í sögunni. Kannski bæði kerlingin og strákurinn séu í verunni svo sem aukapersónur I frásögninni? En það er hin orðvara, rauntrúa frásagnaraðferð sem gefur þessari „sögu á bak við söguna" líf I augum lesanda, gæðir frásögnina nýrri efnislegri vídd.“
Árni Bergmann tók í sama streng í Þjóðviljanum 1976 í ritdómi sem heitir „Varaforði samúðar“ og kom strax auga á þjóðfélagslega hlið sögunnar: „Þessi litla bók er því um það fólk, sem liggur undir þyngstu fargi í þjóðfélaginu. Hún er eindregin málsvörn fyrir það, borin fram lágum rómi en um leið styrkum, styrkum sakir þess, að sú sem mælir þekkir sitt fólk mætavel og kann að láta okkur trúa á það.“
Kröfuharður fagurkeri
Skáldsagan var lesin í útvarp og seinna þýdd yfir á norsku (Kvinnevegar). Líney var víðlesin og vitur, kröfuharður fagurkeri á bókmenntir og listir. Hún var sífellt að fága texta sinn: „Hennar lífssýn var að gera allt það sem maður tók sér fyrir hendur eins vel og unnt var. Það sýnir sig best núna þegar ég fletti í bókum hennar og í ljós kemur að hún hefur verið að gera smábreytingar hér og þar. Skipta setningum og breyta orðalagi. Þá hefur hún verið að velta því fyrir sér hvort betur hefði mátt fara. Og á miðunum hennar kemur í ljós að hún hefur velt hverri setningu fyrir sér og skrifað þær aftur og aftur með smábreytingum, þar til hún var sátt við útkomuna“ segir í minningargrein um Líneyju.
„Þá kemur gildi hans í ljós“
Endurminningar Líneyjar um æsku og uppvöxt á Laxamýri í S-Þingeyjarsýslu í byrjun síðustu aldar eru bæði merkileg heimild og fagrar bókmenntir. Hún skráði þær ásamt Þorgeiri Þorgeirssyni rithöfundi (Það er eitthvað sem enginn veit, 1975). Í tilefni af sjötugsafmæli hennar skrifaði Þorgeir henni bréf í TMM 1983 og sagði m.a.: „Einhverntíma kemur kanski að því að bókmentafræðingur gefi sér tíma að skoða textann þinn og greina myndmál eða hvaðeina annað sem fellur undir kenningar. Þann aðila vildi ég líka biðja að skoða textann þinn útfrá því sem stærra er en kenningar og bókmentir. Þá kemur gildi hans í ljós.“ Þá hefur verið haft eftir henni í TMM merkilegur texti um Elísabetu G, ástkonu Jóhanns Jónsssonar skálds sem vert er að lesa.
Enginn vandi að fá kvenfólk í vinnu
Hér er gripið niður í bókinni þar sem láglaunakonur leita á náðir vinnuveitanda um kauphækkun. Hárfín íronían fer efninu einkar vel:
„Og ég var varla byrjuð að vinna þegar hvískrið hófst. Grunsemdirnar vöknuðu, þegar ég gaf engar skýringar á því að koma með plástur og blátt auga á mánudagsmorgni. Ég vissi hvað sagt yrði á bak, rauði útblásni kallinn sem tók saman draslið fyrir okkur á kvöldin sá fyrir því.
Vandlætingin var auðvitað meiri gagnvart mér af því að ég var kelling. Kallagreyjunum var alltaf svo mikil vorkunn, og ég fékk mína fyrstu reynslu, að vera álitin forhert eða að minnsta kosti önnur en ég þóttist vera.
Mér líkar vel við Stínu. Hún er með bauga undir augunum eins og ég, þó hún sé mörgum árum yngri. Bjartsýnin í mér hefur held ég, lítil áhrif á hana, hún er þurr á manninn og skiptir ekki oft skapi, nema þegar launaumslögin okkar koma. Þá kreppir hún hnefann, stundum báða og lemur í borðið.
Einu sinni tókst mér að draga hana upp og tala við kallana útaf kaupinu.
Það hafði nú lítið upp á sig.
Vinnan er óholl og öll eftirvinna ólaunuð, sagði ég.
Þeir sneru sér við á stólunum og flettu blöðum.
Við vorum eins og aðrir, í vissum launaflokki, úr honum var ómögulegt að komast. Og þeir máttu ekki borga meira, þó þeir væru allir af vilja gerðir.
Við vissum reyndar eitthvað um flokkana, en ekki um þeirra góða vilja.
Það er yfirvinnan sem við viljum fá borgaða. Hana hljótið þig að mega borga. Og ég nefndi dæmi um, að það væri gert.
Þá glottu þessir almennilegheitamenn og sögðu, að enginn vandi væri að fá kvenfólk í vinnu. Þær nenntu ekki lengur að hugsa um heimili og börn og sleiktu út um að fá svona störf til að drýgja tekjurnar. Og þá rak Stína olnbogann í síðuna á mér.
Hún átti þrjú lítil börn, og fyrirvinnan var hún sjálf, og enginn annar til að drýgja tekjurnar.
Hennar vegna hætti ég við að þenja mig, en ekki samt alveg.
Þið getið þó líklega sett glugga á herbergiskytruna hjá okkur þó við séum í lágum launaflokki. Við erum hreint að kafna þarna inni.
Kafna og kafna, svaraði maðurinn í öðrum stólnum:
Líf manns er í guðs hendi, kona góð, og það fer enginn áður en honum ætlað er.“
(30-31)