Líney Jóhannesdóttir
Líney Jóhannesdóttir fæddist á Laxamýri í Suður-Þingeyjarsýslu 5. nóvember 1913.
Líney ólst upp á Laxamýri til ellefu ára aldurs en fór þá í fóstur til Reykjavíkur, lauk prófi frá Kvennaskólanum og stundaði seinna félagsfræðinám í Stokkhólmi.
Líney giftist hinn 18. ágúst 1936 Helga Bergssyni, hagfræðingi og framkvæmdastjóra, d. 1978. Hún starfaði m.a. hjá Raforkumálastofnun og við mæðraeftirlit á Heilsuverndarstöð Reykjavíkur auk húsmóðurstarfa. Hún stundaði ritstörf um árabil og liggja eftir hana nokkrar barna- og unglingabækur með myndskreytingum Barböru Árnason, auk tveggja skáldsagna. Hún ritaði einnig fjölda smásagna, sem birtust í blöðum og tímaritum, íslenskum og erlendum. Auk þess samdi hún leikrit fyrir börn (Litli Refur, Tinna litla) og þýddi hina vinsælu barnabók Húgó og Jósefínu eftir Maríu Gripe. Leikrit eftir Líneyju, Æðarvarpið, var bæði flutt í útvarpi og sýnt í sjónvarpi.
„Er fundum okkar Líneyjar svo eitt sinn bar saman gat ég ekki látið hjá líða að þakka fyrir mig. Þá kynntist ég heillandi konu, í senn geislandi skemmtilegum persónuleika, gáfaðri heimskonu og miklum húmanista sem fann ætíð til með lítilmagnanum, sem lýsti á hljóðlátan og meistaralegan hátt þeim sem fóru halloka í tilverunni, sem brá upp myndum af íslenskri náttúru, dýrum og mönnum af einstakri innlifun. Ekkert var fjær Líneyju en yfirborðs- og sýndarmennska og snobb. Á sama tíma var hún fyrir mér ímynd hins sanna íslenska kúltúrs“ segir í minningargrein um hana.
Líney skráði endurminningar sínar ásamt Þorgeiri Þorgeirssyni rithöfundi þar sem lýst er bernsku- og æskuárum hennar á Laxamýri í Suður-Þingeyjarsýslu og hinni gömlu íslensku bændamenningu (Það er eitthvað sem enginn veit, 1975). Í tilefni af sjötugsafmæli hennar skrifaði Þorgeir henni bréf í TMM 1983 og sagði m.a.: „Einhverntíma kemur kanski að því að bókmentafræðingur gefi sér tíma að skoða textann þinn og greina myndmál eða hvaðeina annað sem fellur undir kenningar. Þann aðila vildi ég líka biðja að skoða textann þinn útfrá því sem stærra er en kenningar og bókmentir. Þá kemur gildi hans í ljós.“
Silja Aðalsteinsdóttir fjallaði um skáldsögu Líneyjar, Kerlingarslóðir, í ritdómi í TMM 1977 og taldi hana með merkustu bókum ársins: „Kerlingarslóðir er þjóðfélagslegt verk sem einkum ræðir vanda kvenna í nútíma borgarsamfélagi, þótt margir þættir aðrir séu í sögunni. Umfjöllun höfundar á vanda einstæðra mæðra, tvöfaldri ábyrgð þeirra, vinnuálagi og fyrirlitningunni sem þær mæta í karlasamfélaginu, er ákaflega raunsæ... Þótt meginefni Kerlingarslóða sé þannig jafnjarðbundið og óvelkomnar barneignir, er stíllinn á sögunni ljóðrænn og minnir oft á prósaljóð. Eins og þau er sagan orðfá og knöpp svo að hún gerir miklar kröfur til lesanda síns. Hann verður að íhuga nærri hverja málsgrein“. Bókin var þýdd á norsku og gefin út í Bergen 1987.
Helga Kress sagði jafnframt í frægri grein um bækur og kellingabækur að bók Líneyjar væri uppreisn gegn karlveldishefð bókmenntastofnunarinnar sem notaði orðið „kerling“ sem skammaryrði og metur daglegt líf kvenna einskis sem bókmenntaefni.
Í viðtali í Dagblaðinu, 1976, segist hún eiga nokkur óprentuð handrit í fórum sínum. Þau eru ekki komin út.
Líney lést 18. júlí 2002.
Ritaskrá
- 1980 Aumingja Jens
- 1976 Kerlingarslóðir
- 1969 Síðasta sumarið (leikrit)
- 1962 Í lofti og læk
- 1961 Æðarvarpið (leikrit)
Þýðingar
- 1974 María Girpe: Húgó og Jósefína