ÆVISTARF JÓHÖNNU KRISTJÓNSDÓTTUR
Jóhanna á góðri stund (mynd: netkaup.is)
Jóhanna Kristjónsdóttir rithöfundur og blaðamaður afkastaði ótrúlega miklu um ævina og setti mark sitt á samfélagið. Hún talaði m.a. hebresku og arabísku og barðist fyrir kjörum einstæðra foreldra og jafnrétti kynjanna.
Á unga aldri stundaði Jóhann nám í Landakoti og Kvennaskólanum og lauk stúdentsprófi frá MR 1959. Hún tók próf í hebresku frá HÍ 1962. Æskuárunum lýsti hún í bókinni Svarthvítir dagar (2014). Tvítug gaf Jóhanna út fyrstu bók sína, metsölubókina Ást á rauðu ljósi (1960). Tvær skáldsögur til viðbótar fylgdu.
Jóhanna var blaðamaður á Morgunblaðinu frá 1967. Þessu skeiði ævi sinnar og sambúðinni við Jökul Jakobsson lýsti Jóhanna í bókinni Perlur og steinar (1993). Eftir skilnað þeirra Jökuls varð Jóhanna fyrsti formaður Félags einstæðra foreldra (1969-1984) og lyfti þar Grettistaki ásamt öðrum. Fyrir störf sín í þágu félagsins var Jóhanna sæmd riddarakrossi 1979.
Jóhanna vann á Morgunblaðinu í 28 ár. Hún sinnti erlendum málefnum og fór víða til að afla efnis. Skrifaði hún um ferðir sínar bækurnar Fíladans og framandi fólk (1988) og Dulmál dódófuglsins (1989). Bókin Fugleiðin til Bagdad (1991) fjallar um ferð til Íraks kringum Persaflóastríðið.
Jóhanna hóf 1995 nám í arabísku í Sýrlandi, Egyptalandi og Jemen. Bjó hún erlendis í fimm ár en gaf á þeim tíma út safn ferðaljóða Á leið til Timbúktú (1996) og æviminningarnar Kæri Keith (1997). Heim komin sneri Jóhanna sér í vaxandi mæli að því að kynna Mið-Austurlönd fyrir Íslendingum og stýrði fjölda ferða þangað. Hún skrifaði vinsælar bækur um heimshlutann, Insjallah – Á slóðum Araba (2001) og Arabíukonur (2004).
Árið 2004 stofnuðu Jóhanna og fleiri VÍMA, Vináttufélag Íslands og Mið-Austurlanda. Ári síðar gekkst hún fyrir stofnun Fatímusjóðsins sem upphaflega einbeitti sér að því að styrkja ungar stúlkur í Jemen til náms og vann þrekvirki á því sviði. Eftir að ófriður óx í Mið-Austurlöndum hefur sjóðurinn í samvinnu við UNICEF safnað ótöldum milljónum til stuðnings stríðshrjáðum börnum í Sýrlandi og Jemen.
Jóhanna lést 11. maí 2017.