SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóhanna Kristjónsdóttir

Jóhanna Kristjónsdóttir fæddist 14. febrúar árið 1940. Foreldrar hennar voru Elísabet Engilráð Ísleifsdóttir, húsmóðir og gjaldkeri, og Kristjón Kristjónsson, forstjóri.

Jóhanna lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1959 og ári síðar, aðeins tvítug að aldri, sendi hún frá sér skáldsöguna Ást á rauðu ljósi sem þótti afar athyglisvert byrjendaverk. Jóhanna skrifaði fyrstu sögur sínar undir dulnefninu Hanna Kristjánsdóttir en það kom fljótlega í ljós hver rithöfundurinn var.

Ást á rauðu ljósi var endurútgefin árið 2002 og af því tilefni segir Jóhanna að skrifin hafi verið af frekar hverdagslegum rótum runnin en á þessum tíma var hún gift Jökli Jakobssyni: „Okkur vantaði einfaldlega peninga fyrir múrverki, raflögnum, pípulögnum og þess háttar í húsið okkar. Ég skrifaði söguna á þremur mánuðum...“ (Ást á rauðu ljósi öðru sinni, 2002). Endurútgáfa þessarar fyrstu skáldsögu Jóhönnu var til að fjármagna arabískunám sem hún hóf að leggja stund á eftir áratuga starf sem blaðamaður.

Jóhanna hóf blaðamennskuferil sinn átján ára hjá Vikunni og um nokkurra ára skeið var hún lausráðinn blaðamaður á Tímanum. Frá árinu 1967 til 1995 var Jóhanna blaðamaður á Morgunblaðinu í fullu starfi ásamt því að sinna ýmsum félagsmálum, en hún stofnaði og veitti forstöðu Félagi einstæðra foreldra og Vima, vináttu- og menningarfélagi Íslands og Miðausturlanda. Jóhanna skrifaði erlendar fréttir í um tíu ár, lét heillast af Miðausturlöndum og ákvað að kynnast aröbum af eigin raun. Hún fór því að venja komur sínar þangað, bæði á eigin vegum og Morgunblaðsins.

Þegar Jóhanna sagði starfi sínu lausu hjá Morgunblaðinu fór hún til Egyptalands til að læra arabísku. Þar dvaldi hún í eitt ár. Að því loknu greip hún í ýmis störf á Íslandi fram til ársins 1998 en þá fór hún til Sýrlands í áframhaldandi nám í arabísku og þaðan til Jemen árið 2001. Auk þessa sinnti Jóhanna fararstjórn um Líbanon og Sýrland ásamt því að kenna námskeið í arabísku og annað um menningarheim araba í Tómstundaskólanum Mími. Þá stofnaði Jóhanna Fatímusjóðinn árið 2005, sem í fyrstu beitti sér fyrir menntun stúlkna í Jemen og síðan fyrir margvíslegri neyðaraðstoð í Afríku og Miðausturlöndum. Sjóðurinn hefur verið í samstarfi við UNICEF undanfarin ár og safnað tugmilljónum króna fyrir börn í neyð.

Jóhanna greinir frá veru sinni og upplifun af Miðausturlöndum í ferðasögum sínum og greinaskrifum en auk þess lagði hún stund á þýðingar og skrifaði skáldsögur, ljóð og sjálfsævisögur. Síðast sendi hún frá sér Svarthvíta daga sem greina frá uppvaxtarárum hennar en áður hafði hún sagt frá árum sínum með Jökli Jakobssyni rithöfundi í Perlum og steinum. Jóhanna giftist Jökli árið 1957, aðeins 17 ára gömul, en þau skildu árið 1969. Þeirra börn eru Elísabet Kristín, Illugi og Hrafn. Jóhanna eignaðist síðan aðra dóttur, Kolbrá, með Höskuldi Skarphéðinssyni skipherra.

Jóhanna lést á heimili sínu að Drafnarstíg þann 11. maí árið 2017 eftir langvarandi og erfið veikindi.

Hér má nálgast blogg Jóhönnu.

 

Heimildir:

  • Ást á rauðu ljósi öðru sinni. (31. maí 2002). Mbl.is. Slóðin er: https://www.mbl.is/greinasafn/grein/671032/
  • Jóhanna Kristjónsdóttir látin. (12. maí 2017). Blaðamannafélag Íslands. Slóðin er: http://www.press.apmedia.is/index.php/felagidh/frettir/3877-johanna-kristjonsdottir-latin

Myndin af Jóhönnu er sótt á vísi.is.


Ritaskrá

  • 2014  Svarthvítir dagar
  • 2004  Arabíukonur: samfundir í fjórum löndum
  • 2001  Insjallah: á slóðum araba
  • 1997  Kæri Keith
  • 1996  Á leið til Timbúktú: ferðaljóð
  • 1993  Perlur og steinar: Árin með Jökli
  • 1991  Flugleiðin til Bagdad
  • 1989  Dulmál dódófuglsins: á ferð með augnablikinu um fjarlæg lönd
  • 1988  Fíladans og framandi fólk: á ferð með augnablikinu um fjarlæg lönd
  • 1967  Miðarnir voru þrír
  • 1963  Segðu engum
  • 1960  Á rauðu ljósi: Reykjavíkursaga

 

Þýðingar

  • 1981  Anna og Kristján eftir Äke Leijonhufvud
  • 1980  Eyjan eftir Peter Benchley (ásamt Illuga Jökulssyni)
  • 1958  Tunglskinsnætur í Vesturdal eftir Gerd Nyquist

 

Tengt efni