SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn 7. september 2017

EINNAR FJAÐRAR FUGL. Um ljóðagerð Ágústínu Jónsdóttur eftir Sigríði Albertsdóttur

Í viðtali sem birtist á Strik.is þann 29. nóvember árið 2000, stuttu eftir útkomu fimmtu ljóðabókar Ágústínu Jónsdóttur, Vorflautu, er skáldkonan spurð hvert hún sæki helst innblástur og yrkisefni sín. Hún svarar: "Í náttúruna. Allan hennar fjölbreytileika og svo í mannlífið. Ég hlusta talsvert á klassíska tónlist á meðan ég yrki og líka á þögnina, það merkilega fyrirbæri. Þögnin hefur þúsund mál og öll áhugaverð. Svo fer ég líka mikið í kvikmyndahús og sæki þangað áhrif og yrkisefni. Ég held að allir listmiðlar tengist einskonar systkinaböndum og það er gott að vinna listrænt undir áhrifum af annarskonar list."

Þessi orð skáldkonunnar er óhætt að hafa að leiðarljósi þegar gluggað er í ljóðabækur hennar en þær komu út með stuttu millibili: Að baki mánans (1994), Snjóbirta (1995), Sónata (1995), Lífakur (1997) og Vorflauta (2000). Greinilegt er að hér heldur fagurkeri á penna, sem kann að njóta fegurðar náttúrunnar og listarinnar í öllum sínum margbreytileika. Mótívin sækir Ágústína víða, m.a. í goðsögur og trúarbrögð og frægustu tónskáld og málarar sögunnar skjóta víða upp kollinum. Myndhverfingum beitir höfundur af stakri snilld og hefur Ágústínu oft verið líkt við tvö af okkar virtustu ljóðskáldum: Stefán Hörð Grímsson og Hannes Pétursson. Ljóðmál hennar hefur áberandi symbólskan kraft sem hvílir ekki endilega í efnistökum heldur í sefjun tungumálsins, þ.e.a.s. ljóðsins.

Athyglisverð er sú staðreynd að í flestum þeim ljóðum þar sem vísað er til bókmennta, tónlistar eða myndlistar má finna þrá ljóðmælanda eftir fegurð, frelsi, kyrrð, algleymi eða ást sem mótvægi við sársauka og vonbrigðum lífsins. Gott dæmi um þetta er upphaf ljóðsins Píanósónata úr Vorflautu en þar hvílir ljóðmælandi hugann frá amstri dagsins, leyfir sér að njóta um stund og rifja upp sælustundir:

Langt er síðan þú blístraðir lag snæddir góðan málsverð hallaðir þér í græna sófann - í stíl Mozarts last bók eða blað

samt kvarta ég lítið og eftirlæt píanósónötu að glæða loftið væntingum skerpa hugann

Örvandi augnaráð til ásta ...

Ástin og allt hið fagra henni tengt er áleitið þema í bókum Ágústínu, ekki aðeins ást milli karls og konu heldur heldur einnig ástin á lífinu sjálfu og óendanlegum dásemdum þess. En Ágústína er einnig óhrædd við að takast á við erfiðari hliðar mannlífsins; söknuð, glataða ást, forboðna eða jafnvel svikula.

Þegar bækur Ágústínu eru bornar saman má sjá að þær mynda órjúfanlega heild en þó yrkisefnin séu keimlík frá einni bók til annarrar er alls ekki um endurtekningar að ræða, þróun skáldskaparins er augljós. Í ljóðum hennar má einnig greina sterka erótík sem gjarnan tengist náttúrunni sjálfri og þar með vefur hún saman í órofa samfellu allt sem anda dregur eins og má t.d. glöggt sjá í ljóðinu Lifum úr Lífakri:

Elskumst lifum nektarárin

á tímum togstreitu

tvíleik lífsleitar

burt frá hinum

Askur og Embla

Ef bornar eru saman fyrsta og síðasta bók Ágústínu má glöggt sjá að ýmislegt hefur breyst. Yrkisefnin eru þau sömu en treginn, sem er allsráðandi í Að baki mánans hefur að miklu leyti vikið fyrir kæti, léttleika og húmor Vorflautunnar. Nöfn bókanna eru einnig táknræn fyrir þær breytingar sem orðið hafa á skáldskapnum. Sársaukinn sem bjó að baki mánans er kominn fram í dagsljósið og ljóðmælandi syngur hann burtu með aðstoð flautunnar, vorsins og fegurðarinnar, sbr. ljóðið Snerting í Vorflautu:

Augu mín fingur að þreifa á fegurðinni

raða henni í blómvönd

Ást og aðskilnaður

Ástin er eins og áður segir grunntilfinningin í ljóðagerð Ágústínu og á sér margar birtingarmyndir. Hún ýmist er eða er ekki til staðar og oft er það fjarvera hins elskaða sem kallar ljóðin fram en einnig nánd hans. Í öllum bókunum er ort um forboðna ást og sársaukann sem henni fylgir, samlíf sem leiðir til skilnaðar og sambönd sem fela í sér einsemd og óhamingju. Elskhugi ljóðmælandans, sem kemur víða fyrir og er trúr öllum bókum Ágústínu, er ýmist ávarpaður sem "þú" eða "hann" og í mörgum tilvikum er hann aflvaki ljóðanna. Úr hugsunum um hann spinnur ljóðmælandi þel sem síðar verður að ljóðum og gott dæmi um það er ljóðið Snerting úr Vorflautu:

Engin orð án þelsins sem ljóð mín spinnast úr

án þín formlaus ljóðspjöll engu að miðla

"Án þín, engu að miðla" segir ljóðmælandi og þá gildir einu hvort um er að ræða sorg eða hamingju. Fyrsta bókin, Að baki mánans skiptist í þrjá hluta: Flæði, Blóðbrigði og Flugskugga. Í upphafsljóðum fyrsta hlutans er fjallað um samruna konu og manns, ást og sælustundir. Síðan má greina "blóðleikið vænghaf" þar sem tekið er á mannlífinu öllu og elskhuganum aðeins vikið til hliðar og í lokakaflanum er ljóðmælandinn staddur "á landamærum vatns og elds" eins og segir í ljóðinu Flugróti köldu (79). Hann hefur nú fundið blóðbragðið af lífinu og er staddur á krossgötum. Hann mælir til elskhugans:

Vekjum á ný stefin er við lékum hjá lindinni

njótum sem fyrr og lifum algleymi

Hamingjan er óstöðug og ástin heit. Hún er "launhelgar ófrjálsra" (16) og höll reist úr glerperlum sem um síðir hnígur í rúst (20) og stundum býr hún í hverfulu hjarta; "í gær/klukknahljómur/þjakandi þögn í dag" (24) Í ljóðinu Fiero er t.d. spurt:

Er það eðli eða ástríða hans að kveikja eld

slökkva?

Í öðrum og þriðja hluta bókarinnar kveður við nokkuð annan tón, myndmálið er kröftugt og talsverð einsemd ríkjandi. Í fyrri hlutanum er mikið um vatnsmyndir sem tákna eiga það flæði sem ríkir í samskiptum elskenda en hér er ort um opin sár, fossandi blóð, ótta og eftirsjá. Í einstaka ljóði má greina sterka þrá og ljóðið Vogun kallast sterkt á við ljóðið Komdu eftir Davíð Stefánsson en þar fjallar Davíð um óhamingjusama stúlku sem vill allt til gera að nálgast horfinn elskhuga að nýju. Ágústína vitnar í sínu ljóði í goðsöguna um Tý sem lagði hönd sína að veði svo hægt yrði að binda hinn ógurlega Fenrisúlf:

Legg hönd djörf í gin úlfsins eða bregð mér í flugulíki verði slíkt til þess ég fái

Í öðru ljóði, Hugsýn, er vísað í Völsungasögu þar sem ljóðmælandi bíður innan vafurlogans í líki Brynhildar Buðladóttur. En öfugt við söguna biður ljóðmælandi þess að sá sem logann ríði brenni til bana. Hann hefur svikið og á allt hið versta skilið. Rýtingnum beinir ljóðmælandi þó oftar að sjálfum sér og nýr honum í djúpu hjartasári eins og glöggt má sjá í ljóðinu Voði :

Vildi ég væri

ekki konan sem ung var

gefin

Bergþóra vildi ekki yfirgefa bónda sinn í brennunni enda ung gefin Njáli en ljóðmælandanum í ljóði Ágústínu er allt öðruvísi farið. Hann er greinilega fastur í hjónabandi sem hann kærir sig ekki um en er svo ráðvilltur að hann nær ekki að koma hugsunum sínum í orð og ljóðið endar í þögn og ráðleysi. Hér er komið að öðru stefi ástarinnar sem leikið er í ljóðum Ágústínu, stefinu um falskan eða rangan samruna og eru slík ljóð nokkur í annarri bók Ágústínu; Snjóbirtu t.a.m. ljóðið Hún og hann:

Konan er nóttin lífið sólin

karlinn dagurinn dauðinn skugginn

Rökkur og Afturelding í hringekju áranna

fylgir sundrun samruna aðskilnaði segull?

Ljóðið Net í Snjóbirtu fjallar einnig um hjónabandið á kaldan og nöturlegan hátt og hefst á þessum orðum: "Það sem guð hefur saman tengt". Ljóðmælandi líkir hjónabandinu við þéttriðið net sem ekki má rjúfa og endar ljóðið í hrópandi spurn: "má maður eigi sundur/skilja?" En lítum á ljóðið í heild:

Það sem Guð hefur tengt

býr þér enn í krossfiskshjarta

að tvinna okkur saman á ný flækja í þéttriðnu neti þínu veiða augun tæru í lygnasta hylnum horfa fölur á þau bresta í frosthörðum straumi

má maður eigi sundur skilja?

Greinilegt er að ljóðmælanda stendur ógn af hjónabandi sínu og í öðru ljóði sem ber heitið Goshverinn líkir ljóðmælandi sér við bandingja sem þyrstir í frelsi (26). Í ljóðunum í Snjóbirtu birtist annars vegar sterk þrá eftir skilnaði og hins vegar sár söknuður yfir aðskilnaði. Hvort ljóðmælandi er hér að vísa til einnar og sömu manneskjunnar er ekki alltaf ljóst en þó er freistandi að álykta sem svo að um tvær persónur sé að ræða, einn sem ljóðmælanda langar að yfirgefa og annan sem ljóðmælandi þráir.

Sterk tengsl eru á milli yrkisefna fyrstu og annarrar bókar Ágústínu og snjallt hvernig hún tengir saman innihald og hönnun bókanna í heild. Aftan á bókarkápu Að baki mánans er að finna nafnlaust ljóð um gullinn foss sem hljóðar svo:

Ólgandi brimið umlykur allt gagntekur mig teygar losta minn og ást ég held dauðahaldi í unað djúpsins vona að mér skjóti aldrei up á yfirborðið

Sama ljóðið birtist aftur í Snjóbirtu og heitir þá Brim en framan við fyrrgreint ljóð hefur höfundur bætt við eftirfarandi línum:

Seiður fegurð og ógn býr í þessum gullna fossi ómótstæðileg þrá dregur mig í straumfallið til þín

Viðbæturnar undirstrika enn frekar þá þrá sem býr í brjósti ljóðmælanda og áréttaðar eru sterkar tilfinningar með orðum eins og ómótstæðilegur, seiður, fegurð, ógn og straumfall.

Á bókarkápu Snjóbirtu flögrar fiðrildi en í síðasta hluta Mánans, Flugskuggum, koma fiðrildi víða við sögu. Þau hafa vængi eins og vonin og fljúga inn í snjóbirtuna sem er fögur og eftirsóknarverð en erfið í að vera. Í öðru ljóði Snjóbirtu, Snertu mig ekki, segir:

Ást breiðir hroll fyrir glugga

hinsta andartak opið síðusár

enginn sér blæða

enginn finnur lykt af viðskilnaði

gráttu Kristur gráttu

Sársaukinn er skerandi og einsemdin mikil eins og í Mánanum. En tónninn í Snjóbirtu er hinsvegar ákveðnari og djarfari, sérstaklega í síðari hluta bókarinnar sem heitir Stakt tré. Þar rekst lesandi aftur og aftur á orð á borð við bálför, spjót, fjötra, rýtinga, vonbrigði, grátandi himin, salt og seyru, hála vegi, tálskugga, hnífsegg, dauðar greinar og svívirt tré. Í hverju ljóðinu á fætur öðru kemur fram vanmáttur sem virðist þó fæða af sér sterkari einstakling því í lokaljóðum bókarinnar má eygja ákveðna von um frelsi og nýja ást. Í ljóðinu Hauskúpur er ort um hvítt fiðrildi sem forðar sér "frjáls eins og ég" (73) og lokaljóðið Stakt tré hljóðar svona:

Að baki fjalla og handan við höf stendur stakt tré illa rætt og vanhirt

stundum er ég þetta tré

enginn þekkir krókótta slóðina til mín nema þú og þegar þú kemur verður tréð laufgrænt og safaríkt

Að sjálfsögðu er lítil bjartsýni fólgin í að líkja sjálfum sér við stakt, vanhirt tré en ljóðmælandinn er bara stundum þetta tré og segir aukinheldur þegar þú kemur! Þannig er í ljóðinu fólgin ákveðin fullvissa um hamingju og gleði sem framtíðin felur í skauti sér.

"Æ, komdu í kvöld að elskast"

Sónata, þriðja bók Ágústínu, er um margt ólík fyrri bókunum tveimur þó enn slái höfundur á líka strengi. Ort er um mann, konu og ástina, eða öllu heldur ástleysið en formið er annað því í Sónötu eru flest ljóðanna sett fram í formi prósa eða örsagna. Einnig hefur djúp örvænting ljóðmælanda vikið fyrir angurværð og ljúfsárum trega og víða hefur kímnin yfirtekið sársaukann. Ljóðmælandi saknar en söknuðurinn er dempaðri en fyrr og á stöku stað er hugsað til elskhugans með gleði í hjarta eins og lokalínur ljóðsins Tengsl eru til merkis um:

Hamingjusöm skrifa ég þig í landið, ljósið, rökkurblámann, djúpið og sjálfa mig. Ég held fast í orð þín og atlot og skil þau aldrei við mig; þau afhjúpa barnið í ljóðinu sem lifnar í mér.

Sum ljóðanna hefjast á orðunum "Þegar ég var ? " "Þegar hún var ?" eða "Þegar hann var ?" og endurspegla þau ljóð þrá ljóðmælanda til að sjá og skilja sem mest, eða löngun hans til að skilja stöðu sína og staðsetningu í ástlítilli veröld. Frá óvæntum sjónarhornum eru sagðar sögur af samskiptum kvenna og karla, ýmist raunalegar eða spaugilegar. Sem dæmi um upphafssetningar í þessum anda má nefna: "Þegar ég var auga sá ég þig á ótal ástarfundum ?" (17), "Þegar ég var dagbókin þín naut ég þess að eiga með þér leyndarmál ?" (20), og "Þegar hann var nagli bak við veggmynd íþyngdi hún honum, dró úr honum máttinn og truflaði hörku hans ?" (47). Oft verður útkoman úr þessum sögum ný og afar frumleg sýn á samskipti kynjanna. Sem dæmi má nefna ljóðið Kónguló (59) en í því ljóði er vikið að kónguló/eiginkonu sem er aðþrengd en það er gert á spaugilegan hátt. Skáldkonan persónugerir konuna í líki kóngulóar sem kúrir í brjóstvasa eiginmannsins en þegar hún vogar sér að skríða upp úr vasanum á frímúrarafundi fer eiginmaðurinn á taugum:

Hann fullyrti að frímúrarar væru veikir fyrir skor- dýrum, einkum kóngulóm en að makar þeirra þyldu þær ekki. Hann bannaði henni að sýna loðnu og svörtu leggina (eða nokkurn annan búkhluta) á óvið- eigandi stund og helgum tíma.

En á þessu stigi málsins hefur kóngulóin/konan fengið sig fullsadda af ófrelsinu og hefur öðlast styrk til að láta sig hverfa:

Kramin kónguló undir skósóla spyrnti loks við fæti og undirbjó spuna í eigin vef. Þegar hún var kafloðin.

Hvað eftir annað er vikið að tímanum, tifi klukknanna sem ramma inn lífið og ? ástina. Í ljóðinu Vísir segir:

Hvar ertu stóri vísir?

Án þín líð ég áfram

ein og ýmist seinka mér eða flýti

brothætt glerið ímyndað virki og svartur taumur togar mig til tveggja átta

marklaust án þín

Hér táknar stóri vísirinn þrána eftir ást, söng og fegurð sem svo undurfallega er ort um í ljóðinu Ástartré sem lýkur á þessum orðum:

Ég er friðurinn í skóginum, færður í kvöldrauð orð. Ég get ekki skáldað: líf mitt er að renna út í stundaglasi dagsins. Æ, komdu í kvöld að elskast.

Bygging bókarinnar er athyglisverð en auk þess að nefna bók sína Sónötu smíðar höfundur form bókarinnar inn í tónlistarformið sjálft. Ágústína byggir bók sína upp í þremur köflum, eins og gjarnt er um sónötur. Líkt og í sjálfri sónötunni eru tvö andstæð stef kynnt í fyrsta kafla en úr þeim hefur verið unnið í lok kaflans. Hin andstæðu stef ljóðabókarinnar eru karl og kona og úrvinnslan snýst um samskipti þeirra. Í fyrsta ljóði bókarinnar Strengleikar, birtist ljóðmælandinn sem einmana og angistarfullur einstaklingur sem hræðist lífið, bælir ópið í brjósti sér og segir vart nokkuð lengur (9). Í næsta ljóði hefur ljóðmælandi fengið bréf í hendur, að öllum líkindum ástarbréf sem hann geymir undir köldum kodda (10) og í ljóðunum þar á eftir er lýst fundum karls og konu, hamingju þeirra, draumum, vonum, sælu og sorg. Úrvinnsla kaflans birtist í síðasta ljóði fyrsta kafla en það ber einmitt heitið Sónata og hefst á þessum orðum: "Saga mín mun aldrei fjarlægjast þig." (26) Elskendurnir eru aðskildir í lokaljóðinu en ljóðmælandi kveður ástina sína með sátt í huga og fagrar minningar í farteskinu. Elskhuginn verður greinilega ávallt hluti af ljóðmælanda, tónn í fagurri hljómkviðu. Svipað gildir um kafla tvö og þrjú, þ.e elskhuginn er sanni tónninn. Ljóðmælandinn upplifir allt tilfinningalitrófið; sársauka, reiði, gleði, væntingar og sorg en báðum köflunum er lokað í sátt og samlyndi þótt "endirinn sé óljós og tvísýnt um upphafið" (73) eins og segir í síðasta ljóði bókarinnar.

Á þennan máta nýtir Ágústína sér uppbyggingu hinnar rómantísku sónötu 19. aldarinnar sem einmitt bregður upp ljóðrænum stemmningsmyndum, fjölgar stefjum og ítrekar gjarnan upphafsstefið í síðasta kafla verksins. Einnig hefur höfundur kynnt sér annað form sónötunnar, sónatínu. Sónatína er lítil sónata, auðleikin og hrá með einföldum stefjum og hefur ekki að geyma úrvinnslukaflana sem gera sónötur svo langar. Ein slík er í fyrsta kafla og heitir Sónatína. Ljóðið er knappt í formi en segir þó allt sem segja þarf:

til vitnis um minningar handan sagnaturnsins um hvítar arkir ástarinnar

Flautað á akrinum

"Íðgræn náttúra þokar trega til hliðar lætur ljóð spretta".

Þannig hljómar upphaf ljóðsins Orðalyng úr fjórðu ljóðabók Ágústínu, Lífakri, og er um margt einkennandi fyrir bókina alla. Eins og fram hefur komið þá er mun bjartara yfir bæði Lífakri og Vorflautu en fyrri bókum höfundar, þó sorgin og einsemdin séu vissulega innan seilingar. Formið er knappt líkt og í Að baki mánans og Snjóbirtu og sömu stef leikin þó með breyttum áherslum sé. Yrkisefnin eru sem fyrr tengd kenndum og tilfinningum, hljómarnir eru hljóðlátir, viðkvæmir, ljóðrænir og látlausir þó undir ólgi sterkur tilfinningahiti.

Þau eru áhrifamikil ljóðin úr Lífakri sem bera heitin Rautt (19) og Blóð (21) en bæði eru þau til vitnis um sársaukann sem ástinni getur fylgt:

Blóð

Hversvegna að sauma nafn í hjarta sér?

Sérhverri stungu fylgir heitt blóð bældra vona

hverju spori nýr sársauki

En þrátt fyrir einsemdina er lífið á akrinum dásamlegt. Ljóðmælandi nýtur fegurðar náttúrunnar og gengur um, vakandi fyrir hinu smáa sem stóra í "haustskóginum":

Einnig hér er lífið á kreiki smágert stórfenglegt

skógarhafshljómkviðan

en samt er ég ein

Eins og áður hefur verið minnst á leitar Ágústína víða fanga í málaralist, bókmenntum og goðafræðum svo dæmi séu tekin. Freistandi er að álykta sem svo að það sé fegurð listarinnar og sköpunin sjálf sem fyrst og síðast lini áföll og harmleiki lífsins. Eitt undurfagurt ljóð af slíku tagi er einmitt að finna í Lífakri og ber heitið Vincent:

Sólblóm halda fyrir mér vöku

ilmur þeirra þegar næturlitir þorna í penslum

skyndilega sé ég hvar

hann birtist með enn eitt blóm og kyssir mig

Hér er það að sjálfsögðu hinn frægi en ólánsami málari Vincent Van Gogh sem færir ljóðmælanda gleði og fegurð. Listbróðir hans Henry Matisse kemur við sögu í Lífakri þó á annan máta sé og Goya leitar inn í ljóðið Túlkun í Að baki mánans á óvenjulegan hátt. Greinilegt er að listin heldur lífinu í ljóðmælanda sem gengur sáttur um listrænan akurinn og drekkur í sig "lögmál / himneskra skóga".

Ágústína yrkir oft þannig að lesandanum finnst hann heyra tónlist um leið og dregnar eru upp litríkar myndir, stundum á "hrungjörn haustlauf" en í Vorflautu tælir ljóðmælandi lesanda oft með sér inn í nautn og hamingju eins og t.d. má sjá í ljóðinu Óskabyr:

Þann dag ríkir kæti í augum hafsins

veruleikinn andæfir

en við siglum bráðan byr á snekkju með stærsta drauminn innanborðs

Í Sónötu er mestmegnis að finna prósaljóð, eins og áður hefur verið vikið að, en þau töfrar Ágústína fram á jafn átakalausan hátt og hin knappari ljóð sín. Í Vorflautu yrkir hún nokkur slík ljóð sem flest einkennast af ísmeygilegum húmor og kímni eins og glöggt má sjá í eftirfarandi broti úr ljóðinu Flóðið:

Í morgunsárið þvo konurnar drauma sína í söltum sjó, hengja þá upp til sýnis þar sem rauður skuggi fellur á þá björtustu. Síðan skola þær körlunum burt en þeir koma allir aftur eins og flóðið.

Þótt sársaukinn sem einkennir fyrstu bækur Ágústínu sé að mestu leyti horfinn í Vorflautu og lífsgleðin ráðandi horfir höfundurinn ekki framhjá skuggahliðum lífsins. Eða eins og Guðbjörn Sigurmundsson orðar það í gagnrýni um Vorflautu í Morgunblaðinu þann 15. nóvember 2002: "Þó að skáldkonan sé uppteknari af hinum jákvæðari hliðum lífsins er alls ekki hægt að segja að hún stingi höfðinu í sandinn. Hún er sér fullkomlega meðvituð um að í skóginum fagra leynist óargadýr og hróp hinna kúguðu eru einatt þögguð niður." Því er ekki að undra þó manneskjan bugist stundum og þrái að hjúfra sig endalaust undir hvítri, dúnmjúkri sænginni eins og lýst er í ljóðinu Hvíld:

Angurvær kuðungur utan um hvíld mína hjalar uns morgnar að ekkert sé eins og forðum utan sárar kenndir

fæ ekki varist hamslausum minningum

langar að hvílast endalaust í hvítum kuðungi

Ekki verður skilið við ljóðagerð Ágústínu Jónsdóttur án þess að minnast á útlit bóka hennar. Greinilegt er að ljóðskáldið leggur mikið upp úr hönnun bókanna, allar eru þær í eins broti og kápur þeirra og útlit er einstaklega smekklegt og fagurlega úr garði gert. Sjálf hefur hún haft veg og vanda að hönnun flestra bóka sinna enda myndlistarmaður og ljósmyndari og hefur þar með sterkt auga fyrir tengslum mynda og texta. Hún yrkir um rembrandtskuggann í síðustu bók sinni (15) og sést þar listbragð ljósmyndarans.

Í Að baki mánans er kápan í ísbláum og hvítum tónum og ef vel er rýnt má greina mannsmynd sem vakið getur hugrenningatengsl við fóstur. Víða í ljóðum Ágústínu er fjallað um misheppnaðan getnað svo og glasafrjóvgun eins og Soffía Auður Birgisdóttir fjallar um á ítarlegan hátt í TMM 3:1996. Þannig kallast bókarkápa og ljóð á, ef svo má segja.

Í Sónötu er kominn meiri friður inn í skáldskapinn og litir bókarkápunnar eru hlýir. Þar er blandað saman rústrauðu og ýmsum afbrigðum af grænum litum og hvítum. Með kápunni tengir höfundur greinilega saman vélmennsku og hlýju, líkt og í ljóðunum sjálfum, samanber rauður litur og hjólför.

Lífakur er mystískari en aðrar bækur Ágústínu og útlitið er í samræmi við það. Hlífðarkápan sýnir trjábörk en inn í hann er felld smá mynd af dökkum og ljósum skuggum sem speglast í vatni og þeir skuggar undirstrika hið ljósa og dökka sem til umfjöllunar er í bókinni sjálfri. Undir hlífðarkápunni er bókin fallega dökkgræn og á hana er prentaður gróður í dempuðum skugga. Græni liturinn gæti táknað vonina og hinir óljósu skuggar plantnanna dulúð náttúrunnar. Það sem ljær útliti Lífakurs hvað fegurstan blæ eru nokkrar ljósmyndir sem höfundur virðist hafa tekið út um allan heim. Þær eru settar upp á gagnsæjan gylltan pappír og lesendur geta valið um að lesa ljóðin með eða án mynda, allt eftir skapi og innlifun!

Í Vorflautu spilar höfundur enn og aftur inn á andstæðurnar: Innri kápan er hrjúfari viðkomu en hlífðarkápan en samt sem áður er útlit beggja mög rómantískt. Rómantíkin birtist einnig glögglega í bókamerki sem fylgir bókinni og áritað er af höfundi, en á því er hið kvenlega og karlega undirstrikað með ljósmyndum úr náttúrunni.

Eins og fyrr er sagt vefur Ágústína saman manneskju, náttúru, tónlist og myndlist svo úr verður órjúfanleg heild og gott dæmi um það er ljóðið Strengir úr Lífakri:

Músíkblá sjáöldur

tónar þeirra heit sumarnótt

þúsundstrengjahafsins

Í þessu samhengi má einnig nefna ljóðið Akur úr sömu bók en þar er orðum sáð í jörð. Þau orð vaxa síðan og dafna í líkingu ljóss sem teygir sig upp úr moldinni og það ljós má túlka á marga og ólíka vegu:

Nýsáð orð lesa sig upp úr moldinni

tendra ljós

Í þessu sérstæða ljóði kemur kyrrðin og birtan sem ríkt getur í samskiptum manns og náttúru skýrt fram, sá hugblær sem þrátt fyrir söknuð og sárar tilfinningar einkennir skáldskap Ágústínu Jónsdóttur fyrst og síðast. Ást og list yfirtekur ávallt harmleiki lífsins, jafnt stóra sem smáa og í hennar skáldskap ríkir "fegurðin ofar öllu".

© Sigríður Albertsdóttir, 2003

Tengt efni