
Ágústína Jónsdóttir
Ágústína Jónsdóttir fæddist 4. maí 1949 í Reykjavík.
Ágústína hefur lagt stund á fjölbreytilegt nám. Fyrst útskrifaðist hún sem snyrtifræðingur 1968 og sem leikskólakennari frá Fósturskóla Íslands 1976. Árið 1991 lauk hún síðan B.Ed. prófi frá Kennaraháskóla Íslands og kenndi lengi við Hjallaskóla í Kópavogi.
Fyrsta ljóðabók Ágústínu, Að baki mánans, kom út 1994 og síðan hefur hún sent frá sér fleiri ljóðabækur. Hún á ennfremur valin ljóð, ásamt tveimur öðrum íslenskum skáldkonum, í bókinni Ljósar hendur sem út kom 1996. Ágústína hefur einnig fengist við myndlist og tekið þátt í útlitshönnun bóka sinna og á meðal annars heiðurinn af útliti bókarinnar Lífakur sem tilnefnd var til bókmenntaverðlauna DV 1997.
Í ljóðunum sækir Ágústína í fegurð náttúrunnar og listarinnar; hún vísar í goðsögur og trúarbrögð auk þess sem tónskáld og málarar sögunnar bregður víða fyrir í ljóðunum. Sigríður Albertsdóttir hefur bent á að ástin og allt hið fagra henni tengt sé miðlægt þema í bókum Ágústínu en þá ekki eingöngu ástin á milli karls og konu heldur jafnframt ástin á lífinu sjálfu og öllu sem það hefur upp á að bjóða. Í sömu mund sé skáldkonan þó órög við að takast á við erfiðari hliðar mannlísins eins og söknuð, glataða ást, forboðna og jafnvel svikula.
Ágústína nýtir gjarnan fallegt myndmál til að koma ákveðnum tilfinningum á framfæri og oft sækir hún líkingar í heim náttúrunnar. Þótt yrkisefni hennar séu svipuð á milli ljóðabóka má þó greina ákveðna þróun í efnistökunum því treginn sem gegndi stóri hlutverki í upphafi víkur smátt og smátt fyrir kæti og léttleika.
Ágústína er búsett í Reykjavík.
Um ljóðagerð Ágústínu:
Soffía Auður Birgisdóttir: ,,Tærar ljóðmyndir ofnar úr þrá: Að baki mánans, Snjóbirta og Sónata eftir Ágústínu Jónsdóttur", Tímarit Máls og menningar, 3. hefti 1996.
Sigríður Albertsdóttir: ,,Einnar fjaðrar fugl. Um ljóðagerð Ágústínu Jónsdóttur", Skald.is 2003.
Ritaskrá
- 2014 Sólstöðuland
- 2000 Vorflauta
- 1997 Lífakur
- 1996 Ljósar hendur: þrjár íslenskar skáldkonur svífa sólgeislavængjum
- 1995 Snjóbirta
- 1995 Sónata
- 1994 Að baki mánans
Tilnefningar
- 1998 Til menningarverðlauna DV í bókmenntun fyrir Lífakur
Heimasíða
www.agustina.is