SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir 7. mars 2021

ÁSTARLJÓÐ TIL MANNSINS MÍNS FYRRVERANDI - Guðrún Svava

Myndlistarkonan og þýðandinn Guðrún Svava Svavarsdóttir (f. 1944) sendi árið 1982 frá sér ljóðabókina Þegar þú ert ekki, en þema hennar og umfjöllunarefni er skilnaður við skáldið Þorstein frá Hamri. Ljóðabókin er fallega upp sett, á sérlega fallegum pappír, hún er þrungin söknuði og skreytt sársaukafullum myndum höfundar.

Guðrún Svava hefur haldið námskeið og myndlistarsýningar, gert leikmyndir og myndskreytti m.a. Ljóðasafn Þorsteins frá Hamri 1984 og Urðargaldur 1987. Einnig myndskreytti hún Örvar-Odds sögu í útgáfu Þorsteins, Laxdælu í útgáfu Halldórs Laxness, þjóðsögur í útgáfu Hrings Jóhannessonar og Þorsteins, Búrið eftir Olgu Guðrúnu Árnadóttur og tvær ljóðabækur Steinunnar Eyjólfsdóttur.

Yrkja mig frá angri

Um bókina, Þegar þú ert ekki, segir Guðrún Svava í viðtali í Helgarpóstinum, 17. desember 1982:

„Það er hægt að líkja þessu við að eignast barn í fyrsta sinn, Þarna er eitthvað nýtt að fæðast, sem maður hefur átt þátt í að gefa líf og það er mjög góð tilfinning". Þannig lýsir Guðrún Svava Svavarsdóttir myndlistarmaður því hvernig það er að sjá sína fyrstu bók á prenti... Guðrún Svava segir, að samning bókarinnar hafi verið tilfinningaleg útrás fyrir hana. „Ég var að yrkja mig frá angri", segir hún. Í bókinni tekur hún fyrir tilfinningar sínar og upplifun á tímabili í lífi sínu, þegar hún kemst að því, að maður hennar er í tygjum við aðra konu, og eftir að hann er farinn að heiman. Er hún ánægð með bókina? „Já, ég er ánægð með hana sem verk eða sem hlut. Hún er mjög nálægt því að vera eins og ég vildi hafa hana. Mér finnst þeir ekkert hafa til sparað hjá Iðunni og það hefur verið mjög skemmtilegt að vinna með þeim. Mér finnst þetta falleg lítil bók og ég er þakklát fyrir að hafa fengið að gera hana þannig" segir Guðrún Svava.“

Ástarljóð til fyrrverandi

Í viðtali við Guðrúnu Svövu í Morgunblaðinu frá 8. október 1982 segir m.a.:

„Guðrún Svava býður upp á rótsterkt og gott ítalskt expressokaffi og við spyrjum hvort hún hafi fengist við skriftir áður. „Nei, ekkert komið nálægt því, orti að vísu eitthvað þegar ég var stelpa, eins og allir gera.“ Guðrún er þekktari fyrir myndverk sín en Ijóðagerð og hefur meðal annars unnið talsvert við leikhúsin, teiknað leikmyndir og búninga. „Þessi Ijóð fjalla um tilfinningar mínar í gegnum visst skeið í lífinu. Það má kannski segja að þetta séu ástarljóð til mannsins míns fyrrverandi, en Ijóðin eru ort á síðastliðnu ári.“ Guðrún segir að meðan hún hafi verið að ganga í gegnum mestu erfiðleikana í sambandi við sambúðarslit þeirra hjóna hafi hún ekkert getað unnið í myndlistinni en svo hafi þessi Ijóð brotist í gegn.

Konur gefa oft meira af sér

„Það er ekki nokkur vafi að þetta hefur hjálpað mér í gegnum erfiðan tíma. Þar sem þau fjalla um persónulega reynslu mína hafa sumir spurt hvers vegna ég haldi þessu ekki bara fyrir mig. En ég hef alltaf sem listamaður unnið mikið með tilfinningar, bæði mínar og minna nánustu þó ég hafi að þessu sinni breytt um form, og hef oft unnið myndverkin á táknrænni hátt. Ég held líka að þessi Ijóð eigi erindi til annarra sem standa í svipuðum sporum eða hafa lent í svipaðri lífsreynslu.“ Hún segir að sér finnist skilnaður vera allt of algengur þáttur í lífi okkar í dag ásamt allskyns framhjáhöldum og lausung. „Ég held að skilnaður sé oft mesta persónulega skipbrot sem nokkur getur orðið fyrir og oft miklu erfiðara fyrir konur að skilja en karla því þær hafa oft gefið miklu meira af sér í sambandinu.“

Fólk upptekið af að neyta

Og hún heldur áfram og segir að sér finnist fólk oft hömlulaust, bæði efnahagslega og tilfinningalega. „Fólk er of upptekið af því að neyta allra hluta, það heldur að það verði hamingjusamara ef það eignast nýjan bíl eða nýjan maka, en það er löngu vitað að það er ekki rétta leiðin. Það sem skiptir fólk mestu máli býr í því sjálfu, hæfileikinn til að elska og gefa eitthvað af sér. Það er margt svo mótsagnakennt í lífinu, menn virðast t.d. stundum halda að frelsi felist í því að gera allt sem manni dettur í hug, en ég held menn verði ekki frjálsir nema með því að temja sér ákveðinn sjálfsaga.“

Brot úr ljóðabókinni:

Hún benti á þig:
Ég vil hann.
Og ást mín varð gömul.
...
Það er þungbært -
að hafa í fimmtán ár
reynt að gæta þess að þú fengir frið til að skrifa
reynt að styrkja þig á erfiðum stundum
reynt að sjá til þesss að þú glataðir ekki alveg
börnunum þínum fimm -
að vera kastað burt einsog einskis nýtu húsgagni.
Aldrei framar mun ég treysta mönnunum
né hrífast af fegurð landsins.
Aldrei framar.
 

 

 

 

Tengt efni