UPPREISN GEGN SKYNSEMI OG MÆLIKVÖRÐUM - Arndís Þórarinsdóttir
Það er ekki hægt að segja annað en að Arndís Þórarinsdóttir (1982) hafi slegið í gegn á sínum 10 ára rithöfundarferli. Fyrsta bók hennar, Játningar mjólkurfernuskálds, kom út 2011 og sama ár hreppti hún nýræktarstyrk Bókmenntasjóðs og árið eftir var bókin tilnefnd af Félagi fagfólks á skólasöfnum til norrænu barnabókmenntaverðlaunanna. Bók hennar Nærbuxnanjósnararnir var tilnefnd til Íslensku bókmennta-verðlaunanna í flokki barna- og ungmennabóka árið 2019.
Hún hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin 2020 í flokki barna- og unglingabóka (ásamt Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur) og barnabókmenntaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur (ásamt Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur) og var einnig tilnefnd fyrir ljóðabókina Innræti. Um það verk segir í umsögn dómnefndar: „Í þessari fyrstu ljóðabók Arndísar Þórarinsdóttur er að finna leiftrandi lýsingarnar á meitluðum og frumlegum efnistökum sem skilja mikið eftir sig.“
Ljóst er að hún er rík af sköpunargáfu og af henni er mikils að vænta. Þegar hún veitti bókmenntaverðlaununum viðtöku sagði hún m.a. í ræðu sinni (heimild: mbl).:
„Þegar ég byrjaði að fást við skriftir hafði ég mjög jarðbundna afstöðu til þeirra. Þetta var starf sem byggðist á gagnreyndum aðferðum sem hægt var að læra. Með þjálfun ykist fimi og með því að sitja við tölvuna átta tíma á dag, fimm daga vikunnar væri auðvelt að reikna út afkastahraða og skila sómasamlegum afurðum með reglulegu millibili.
Mér leiddist tal um dulúð starfsins. Flestum öðrum stéttum lukkast að sneiða hjá orðinu galdur þegar þær skrifa starfslýsingu.
Eftir nokkur ár á þessu undarlega sviði hef ég samt – þvert gegn vilja mínum – komist að þeirri niðurstöðu að störf listamanna séu í grunninn óskiljanleg og að það sem ég taldi áður hátimbraðar klisjur er ágætis lýsing á veruleika.
Sköpunin er galdur. Stundum er fljótlegasta leiðin að settu markmiði að leggja tímabundið niður störf. Ofan á allt annað birtist svo jafnan fleira í textanum en höfundur vissi að hann kynni frá að segja, af því að undirvitundin – undirvitundin – er mikilvægasti vinnufélaginn.
Þetta hefur reynst mér nokkurt áfall.
Við lifum á tímum skynsemi, mælanlegra afkasta og krafna um hagræðingu og aukna framleiðni. Grunnforsendan er sú að mannanna verk falli undir slíka mælikvarða.
Afköst rithöfundarins, á hinn bóginn, eru oft beinlínis neikvæð. Í dagslok höfum við iðulega fargað fleiri orðum en þeim sem eftir standa. Það að einhverjum bókum sé nokkru sinni lokið með þessu vinnulagi er staðreynd sem ég ímynda mér að Excel-skjölum heimsins yrði mjög brugðið að heyra af.
Þetta ósamræmi í veruleikanum hefur valdið mér nokkrum heilabrotum, sem leiða til spurninga um það af hverju einhver leyfi sér þessa uppreisn gegn skynsemi og mælikvörðum, að sinna ritstörfum.
Og þá neyðist ég til þess að ganga enn lengra og leyfa mér að segja að hvötin til þess að segja sögur sé köllun. Köllun til þess að helga sig rannsóknum á mennskunni og tungumálinu með verkfærum frásagnarlistarinnar. Og köllun er eitthvað sem hefur jafnvel enn minna pláss í nútímanum en galdur.
Þessi togstreita ætti að vera óbærileg, en hún er það samt ekki, af því að þótt verklag listamanna falli illa að viðmiðum samfélagsins á listin sjálf sinn ótvíræða sess í því. Það er ómetanlegt að búa í samfélagi þar sem er talað um sögur, sögur eru lesnar og sögur eru rannsakaðar og metnar. Það skiptir máli að búa í samfélagi sem stendur ekki á sama um bækur.“