Arndís Þórarinsdóttir
Arndís Þórarinsdóttir er fædd árið 1982 í Reykjavík.
Arndís er með BA gráðu í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands, MA gráðu í leikritun frá Goldsmiths College, University of London og MA gráðu í ritlist frá Háskóla Íslands. Hún hefur starfað sem blaðamaður og gagnrýnandi og var deildarstjóri á Bókasafni í Kópavogs í rúm tíu ár áður en hún sneri sér alfarið að ritstörfum.
Árið 2005 birtist fyrsta smásaga hennar, „Líf og önd“, í Tímariti Máls og menningar og hefur hún síðan sent reglulega frá sér smásögur auk þess að skrifa í bæði dagblöð og tímarit.
Fyrsta skáldsaga Arndísar, Játningar mjólkurfernuskálds, kom út 2011. Þessi frásögn af fermingarstúlku sem fer út af sporinu hlaut mjög góðar viðtökur og var tilnefnd til Norrænu barnabókaverðlaunanna 2013.
Arndís hefur skrifað talsvert fyrir Námsgagnastofnun, þar á meðal stuttar skáldsögur fyrir mið- og unglingastig.
Haustið 2018 kom barnabókin Nærbuxnaverksmiðjan út, sem er fyndin og fjörmikil saga ætluð lesendum á yngri stigum grunnskóla. Ári síðar komu Nærbuxnanjósnararnir og var bókin tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki barna- og unglingabóka. Þriðja bókin í seríunni, Nærbuxnavélmennið, bættist síðan við árið 2020.
Í samvinnu við Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur skrifaði Arndís bókina Blokkin á heimsenda sem kom út árið 2020. Sagan gerist á óræðum stað en þar er tekist á við ýmis mikilvæg málefni eins og einmanaleika og einangrun, mikilvægi þess að vera í samskiptum við aðrar maneskjur. Loftlagsváin er einnig til umfjöllunar en lögð er áhersla á að mannskepnan komi vel fram við náttúruna og vinni saman að því að vernda hana. Bókinni var afar vel tekið en hún hlaut bæði Íslensku bókmenntaverðlaunin og Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur.
2020 sendi Arndís frá sér sína fyrstu ljóðabók, Innræti. Þar er meðal annars ort um ólík hlutverk kvenna, hversdagsleg atvik og ýmis fyrirbæri. Bókin var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki skáldverka.
Bál tímans kom út vorið 2021 og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Bókin er einstök fyrir þær sakir að sögumaður hennar er sjálf Möðruvallabók sem segir lesendum sínum frá tilurð sinni til tímans þega hún flytur í Hús íslenskra fræða.
Arndís hefur einnig fengist við þýðingar og ritstjórn, meðal annars hefur hún þýtt Hulduheima-seríuna eftir Rosie Banks og bókmenntaritgerð J.R.R. Tolkien; Bjólfskviða: Forynjurnar og fræðimennirnir.
Arndís hefur stýrt fjölmörgum ritsmiðjum fyrir bæði börn og fullorðna. Þá hefur hún unnið mikið að félagsmálum tengdum barnabókmenntum og var formaður IBBY á Íslandi um árabil. Hún situr nú í stjórn Síung á íslandi, samtaka íslenskra barna- og unglingabókahöfunda.
Arndís býr í Reykjavík með eiginmanni sínum og tveimur börnum.
Ritaskrá
- 2023 Mömmuskipti (með Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur)
- 2022 Kollhnís
- 2021 Bál tímans
- 2020 Nærbuxnavélmennið
- 2020 Innræti
- 2020 Arfurinn
- 2020 Blokkin á heimsenda (með Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur)
- 2019 Nærbuxnanjósnararnir
- 2019 Galdraskólinn
- 2018 Nærbuxnaverksmiðjan
- 2015 Gleraugun hans Góa
- 2013 Lyginni líkast
- 2011 Játningar mjólkurfernuskálds
Verðlaun og viðurkenningar
- 2023 Verðlaun bóksala (ásamt Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur) fyrir Mömmuskipti
- 2023 Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar fyrir Kollhnís
- 2023 Fjöruverðlaunin fyrir Kollhnís
- 2022 Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir Kollhnís
- 2020 Íslensku bókmenntaverðlaunin (ásamt Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur) fyrir Blokkina á heimsenda
- 2020 Barnabókmenntaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur (ásamt Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur) fyrir Blokkina á heimsenda
- 2019 Viðurkenning Ljóðstafs Jóns úr Vör
- 2016 Viðurkenning Ljóðstafs Jóns úr Vör
- 2011 Nýræktarstyrkur Bókmenntasjóðs
Tilnefningar
- 2024 Til Astrid Lindren verðlaunanna 2025
- 2024 Til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar (ásamt Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur) fyrir Mömmuskipti
- 2023 Til Íslensku bókmenntaverðlaunanna (ásamt Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur) fyrir Mömmuskipti
- 2022 Til Norrænu barnabókmenntaverðlaunanna fyrir Kollhnís
- 2021 Til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Bál tímans
- 2020 Til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Innræti
- 2019 Til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Nærbuxnanjósnarana
- 2013 Til Norrænu barnabókmenntaverðlaunanna fyrir Játningar mjólkurfernuskálds
Þýðingar
- 2020 Tove Jansson: Dúkkuhúsið í Smásögur heimsins. Evrópa
- 2017-2020 Rosie Banks: Hulduheima-serían
- 2013 J.R.R. Tolkien: Bjólfskviða: Forynjurnar og fræðimennirnir
Heimasíða
https://arnd.is/