ÁHUGAVERÐAR BÆKUR 2020
Árið 2020 reyndist mörgum erfitt og hafa bókmenntir sjálfsagt létt mörgum lundina. Blessunarlega stóð bókaþjóðin undir nafni, þá sem fyrr. Konur létu ekki sitt eftir liggja og sendu frá sér rúmlega hundrað verk af ýmsu tagi. Um fimmtíu bækur voru flokkaðar sem fagurbókmenntir en þar reyndust mun fleiri áhugaverðar en þær örfáu sem hlutu náð fyrir augum dómnefnda. Hér á eftir verða nokkrar þeirra kynntar stuttlega.
Loftskeyti
Loftskeyti er fjórða ljóðabók Sigrúnar Björnsdóttur en fyrsta bókin hennar, Næturfæðing, kom út árið 2002. Sigrún lauk nýlega námi í ritlist og er ljóðabókin Loftskeyti afrakstur þess en hún er gefin út í samstarfi við Blekfjelagið sem er útgáfa meistaranema í ritlist við HÍ. Í Loftskeyti er m.a. unnið með dulmálslykla, tungumálið og ljóðrænu með afar frumlegum hætti. Bókin er með nýstárlegri verkum ársins.
Herbergi í öðrum heimi
María E. Bragadóttir
Smásagnasafnið Herbergi í öðrum heimi er eftir Maríu Elísabetu Bragadóttur. Safnið geymir sjö smásögur sem hverfast um þrá fólks eftir tengslum og uppgjöri. Herbergi í öðrum heimi er fyrsta verk Maríu Elísabetar en það er enginn byrjendabragur á því. Sögurnar eru afar vel skrifaðar og mjög hugvekjandi enda fékk safnið mikla eftirtekt fyrir að vera athyglisverð frumraun upprennandi rithöfundar.
Kyrralífsmyndir
Kyrralífsmyndir er áttunda ljóðabók Lindu Vilhjálmsdóttur. Þetta er falleg bók sem geymir skemmtilega nálgun að kórónuveiruástandinu. Ljóðin eru ort um tímabilið 24. mars til 26. maí árið 2020 og lýsa vel, og oft á mjög hnyttinn hátt, þeim stakkaskiptum sem samfélagið tók á þessum tíma. Bókina prýða auk þess afar fallegar myndir eftir höfund.
Óstöðvandi skilaboð
Óstöðvandi skilaboð er áttunda ljóðabók Ásdísar Óladóttur en fyrsta ljóðabók hennar, Birta nætur, kom út árið 1995. Þá kom ljóðaúrvalið Sunnudagsbíltúr út árið 2015, á tuttugu ára höfundarafmæli Ásdísar. Óstöðvandi skilaboð er afar falleg bók, það er vel um hana búið, og þrátt fyrir að láta lítið yfir sér geymir hún afar tilfinningarík ljóð, myndrík og frumleg sem lifa lengi með lesandanum eftir að lestri er lokið.
Ein
Ein eftir Ásdísi Höllu Bragadóttur er fyrsta skáldsaga hennar en áður hefur hún sent frá sér tvær minningasögur og viðtalsbók. Skáldsagan Ein er samtímasaga sem fjallar um líf nokkurra persóna sem fléttast saman á óvæntan hátt. Sagan er vel skrifuð og uppbyggð auk þess sem Ásdísi Höllu tekst vel að smíða afar trúverðugar og sympatískar sögupersónur sem hreyfa við lesandanum.
Vist
Arnhildur Lilý Karlsdóttir
Vist er safn örsagna eftir Arnhildi Lily Karlsdóttur. Bókin er handsaumuð og er kápan laglega skreytt af höfundi. Verkið er aðeins örfáar blaðsíður þar sem það er hluti af sýningunni Svo grænt! Viðfangsefni sýningarinnar var vistrækt og ber örsagnasafnið þess merki. Það hefur að geyma myndrænar táknsögur þar sem flóran og fuglarnir eru persónugerð. Þarna tekst höfundi mjög vel upp og hefði verkið vel mátt vera lengra.
Guðrúnarkviða
Guðrúnarkviða er eftir Eyrúnu Ósk Jónsdóttur. Hún hefur sent frá sér fjölda verka og hlaut m.a. bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2016 fyrir ljóðabók sína Góðfúslegt leyfi til sígarettukaupa. Guðrúnarkviða er ljóðsaga um konu sem vaknar upp í kistu í eigin jarðarför og geymir sagan býsna frumlega og hnyttna nálgun að bæði hugrenningum hennar og annarra kirkjugesta.
Eldarnir
Eldarnir er eftir Sigríði Hagalín en hún er þriðja skáldsaga hennar. Sú fyrsta, Eyland, kom út árið 2016 og fékk verðskuldaða athygli. Eldarnir er vel skrifuð og fléttuð saga sem hverfist um eldfjöll og ást þar sem landskjálfti og tilfinningaskjálfti haldast skemmtilega í hendur; í þessu samspili tekst höfundi oft býsna vel upp. Sagan á sérstaklega vel við þessa dagana og er nánast skyldulesning fyrir þá sem eru áhugasamir um jarðfræði og eldgos.
Konan sem elskaði fossinn
Konan sem elskaði fossinn er eftir Eyrúnu Ingadóttur sagnfræðing en hún hefur sent frá sér verk af ýmsu efni, þó flest af sagnfræðilegum toga. Konan sem elskaði fossinn fjallar um Sigríði í Brattholti (1871–1957), einn kunnasta náttúruverndarsinna Íslandssögunnar, og baráttu hennar fyrir verndun Gullfoss. Eyrún hefur rannsakað ævi og baráttu Sigríðar um árabil og gerir hún sögu hennar afar góð skil í þessari vel skrifuðu og spennandi bók.
Sjálfsát
Helena Cova
(þýðing: Helga Soffía Einarsdóttir)
Sjálfsát geymir þrettán ör- og smásögur eftir venesúelíska-íslenska höfundinn Helenu Cova. Helga Soffía Einarsdóttir þýðir sögurnar yfir á íslensku og myndskreytingar eru eftir Rubén Chumillas. Helena Cova er núverandi forseti Ós pressunnar og er Sjálfsát annað verk hennar, en áður hefur hún sent frá sér barnabók. Sögurnar í Sjálfsát geyma myrk ævintýri, í anda töfraraunsæis, og eru afar fersk viðbót við bókmenntaflóruna.